Farice ehf. er félag sem rekur sæstrengi milli Íslands og meginlands Evrópu. Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þess efnis að fjárhagsstaða félagsins væri erfið og að ríkið hefði þurft að veita því fé.

Þetta var þá gert bæði í formi hlutafjárkaupa og skammtímalána. Í árslok 2012 áttu ríkið og Landsvirkjun um það bil 60% hlut í félaginu.

Nú hefur Ríkisendurskoðun birt aðra skýrslu sem fylgir þeirri sem gerð var 2012 eftir. Sú skýrsla sýnir fram á að fjárhagsstaða félagsins hafi batnað umtalsvert. Rekstrartap hefur minnkað og skuldir lækkað.

Þrátt fyrir þetta telur Ríkisendurskoðun að áhætta ríkissjóðs vegna ábyrgða á lánum til félagsins sé veruleg. Skuldir Farice í árslok 2014 námu rétt rúmlega 8,3 milljörðum íslenskra króna - en ríkið bar ábyrgð á um 85% þeirrar fjárhæðar.

Í skýrslunni frá 2012 hafði stofnunin einnig bent á að veiting ríkisábyrgða til Farice hefði ekki alltaf verið í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Heimildir í fjárlögum hafði vantað vegna aðkomu ríkisins að félaginu.

Enn fremur hafði þjónustusamningur Fjarskiptasjóðs ekki verið í fullu samræmi við reglur. Fjarskiptasjóður úthlutar fjármunum til uppbyggingar stofnkerfa í fjarskiptamálum.