Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að herða sóttvarnaráðstafanir á landamærum í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þannig munu íbúar frá áhættusvæðum þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi milli skimana og sóttvarnaráðstafanir á landamærum taka til barna fæddum 2005 eð síðar, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Reglugerð heilbrigðisráðherra um þessar breytingar tekur gildi 1. apríl og gildir til loka mánaðarins.

Aðgerðir sem taka gildi 1. apríl

Íbúar frá áhættusvæðum dvelji í sóttvarnahúsi: Allir sem koma frá eða hafa dvalið á svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 í búa er yfir 500 skulu dvelja í sóttvarnahúsi meðan á sóttkví stendur, eða ef þeir þurfa að sæta einangrun vegna smits. Sama máli gegnir um einstaklinga sem koma frá löndum þar sem skortir upplýsingar um nýgengi smita. Þetta eru svæði sem Sóttvarnastofnun Evrópu skilgreinir annars vegar sem dökkrauð (nýgengi smita yfir 500), eða sem grá svæði (upplýsingar um nýgengi skortir).

Sýnataka hjá börnum fæddum 2005 og síðar: Öll börn fædd 2005 eða síðar skulu fara í sýnatöku á landamærunum. Börn á þessum aldri sæta aðeins sóttkví ef þau ferðast með foreldrum, forráðamönnum eða einhverjum öðrum sem skylt er að fara í sóttkví samkvæmt gildandi reglum. Ekki verður gerð krafa um að börn fædd 2005 eða síðar framvísi neikvæðu PCR-prófi við komu.

Ekki enn tekið afstöðu til tillaga vegna mótefna

Í minnisblaði sóttvarnalæknis er einnig lagt til að tímabundið verði einungis tekin gild vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningarvottorð frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada. Einnig er lagt til að allir skuli sæta einni sýnatöku við komuna til landsins, óháð því hvort þeir séu með gild vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningu. Heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þessara tillagna og verða þær ræddar í ráðherranefnd og ríkisstjórn í vikunni.

Smitum fjölgar á landamærunum

Í tilkynningunni segir að smit hafi verið fá innanlands að undanförnu en hafi fjölgað á landamærum og að suma daga hafi allt að 10 einstaklingar greinst smitaðir. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að flestir þeirra hafi framvísað neikvæðu PCR prófi við komu og reynst neikvæðir við fyrri sýnatöku á landamærum en greinst með smit í síðari sýnatökunni. Þetta bendi til þess að margir hafi smitast skömmu fyrir komuna til landsins og sé ástæðan án efa mikil útbreiðsla COVID-19 í flestum grannríkjum okkar. Sóttvarnalæknir telur hættu á því að faraldur breiðist út innanlands einkum stafa af smitum á landamærum. Því sé áríðandi að beita áhrifaríkum aðgerðum þar til að lágmarka hættuna.