Staðan í dag, nú rúmum sex vikum fyrir hlaupið sjálft, er að heildaraukning í skráningum í þátttöku er 10% frá síðasta ári, en skráningum Íslendinga hefur fjölgað um nálega fimmtung, eða 18%. Í fyrra söfnuðust tæpar 100 milljónir í áheitum til góðra málefna í hlaupinu, en nú þegar hefur verið þriðjungsaukning í áheitum, eða sem nemur 33% miðað við sama tíma í fyrra. Er styrkupphæðin nú komin í 10,7 milljónir króna.

Fjölmennustu erlendu þátttökuþjóðirnar eru Bandaríkin með 900 skráða þátttakendur, Bretland með 471, Kanada með 312 og Þýskaland með 297. Síðan raða sér norðurlandaþjóðirnar í næstu þrjú sæti. Mest aukning hefur verið í þátttöku í Furðufatahlaupi Georgs, þar sem hún nemur 34%, en langflestir þátttakendur eru eftir sem áður í 10 km hlaupinu, eða 3.810 nú þegar skráðir. Aukningin þar er 18% frá árinu 2016.

Þátttakendur í 21,1 km hálfmaraþoni eru nú 2.380, sem er aukning um 7%, meðan þátttakan í 42,2 km maraþoninu er svipuð og árið áður, eða 1.511. Íslendingar eru 5.017 þátttakendur, en erlendir þátttakendur eru 3.376. Fleiri konur en karlar eru skráðir þátttakendur, eða 4.653 á móti 3.740.