Hallfríður Þóra Tryggvadóttir hefur í rúm þrjú ár starfað við markaðsmál hjá Lincoln Center í New York, einni fremstu sviðslistamiðstöð í heiminum og hjarta sviðslista í borginni. Hallfríður, sem iðulega er kölluð Halla, hlaut nýverið stöðuhækkun og gegnir nú starfi aðstoðarmarkaðsstjóra Lincoln Center (e. Associate Director of Marketing), þar sem hún leiðir mótun og framkvæmd markaðsstarfs.

„Lincoln Center var stofnað fyrir 60 árum til þess að verða heimili lista í New York og hefur í raun þróast yfir í að vera ákveðið „mekka" sviðslista," segir Hallfríður Þóra.

Lincoln Center er heimili 10 menningarstofnana sem spanna allt litróf sviðslista. Þar á meðal er Metropolitan-óperan, Juilliard-skólinn, New York Fílharmónían og New York-ballettinn, Broadway leikhúsið Lincoln Center Theater og bókasafn sviðslista, en þar eru geymdar upptökur af leiksýningum sem settar hafa verið upp á Broadway og víðar tugi ára aftur í tímann.

„Ég sá West Side Story á þessu bókasafni sem hluta af verkefni hjá forstjóra Disney Theatrical þegar ég var við nám í Columbia. Verkefnið fólst í því að sjá sýningu sem við höfðum aldrei séð áður. Ég hafði ekki séð West Side Story í Bandaríkjunum þannig ég fór og ákvað að sjá gamla Broadway-uppsetningu. Það var magnað að ferðast svona aftur í tímann."

Hallfríður segir að Lincoln Center leggi ríka áherslu á að bjóða fólk velkomið sem myndi alla jafna ekki fara í leikhús eða á tónleika, svo það fái tækifæri til að kynnast listum.

„Stór hluti starfs míns snýr að því að ná til nýrra áhorfenda. Það er mikil misskipting í Bandaríkjunum og margir sem hafa ekki tök á því að sækja viðburði. Áhorfendahópurinn þar í landi hefur verið fremur einsleitur í gegnum árin en það er margt að breytast. Til að koma af stað breytingu sem þessari þurfa listamenn meðal annars að endurspegla fjölbreytileika New York-borgar. Áhorfendur verða að geta tengt við sögurnar sem fluttar eru á sviðinu og speglað sig í þeim."

Bjó til streymisveitu á einni nóttu

Starf Hallfríðar breyttist á einni nóttu þegar faraldurinn skall á, en til að byrja með þurfti að aflýsa öllum viðburðum. Hallfríður segist ekki hafa vitað í hvorn fótinn hún ætti að stíga í mars 2020 - sett var á ferðabann til Bandaríkjanna og hún var lokuð inni í íbúðinni sinni í New York. Hún ákvað á endanum að fara heim til Íslands í tvo mánuði, en á þeim tíma vildi enginn trúa því að þetta yrði langvarandi ástand.

„Eftir að ég lenti á Íslandi bjuggum við til streymisveitu á einni nóttu. Það var mikið lán að Lincoln Center hefur unnið hörðum höndum að því í gegnum tíðina að mynda tónleika, dansverk og leiksýningar. Við höfðum því mikið safn til að vinna með en mikill tími fór í að ganga úr skugga um að við gætum deilt þessu á samfélagsmiðlum. Það er nefnilega tiltölulega nýr vettvangur í þessu samhengi þó að það sé svona risastór hluti af lífi okkar."

Á þessu tímabili þróaðist starfið ört en allt í einu var Hallfríður að taka þátt í því að færa þessa sviðslistamiðstöð, sem iðar af lífi og snýst um að setja á svið lifandi list, yfir á vefinn. Þangað til í sumar snerist starf Hallfríðar því um að leiða markaðssetningu og notendaupplifun á streymisveitu fyrir sviðslistir. Hún segir að sér hafi liðið eins og hún væri að taka þátt í að finna upp hjólið hvern einasta dag síðan í mars 2020.

„Stafrænt efni opnar dyr inn á spennandi markaði og eykur stærð áhorfenda til muna. Þegar þessir einstaklingar koma svo til New York sem ferðamenn munu þeir mögulega sækja sýningar í eigin persónu hjá Lincoln Center," segir Hallfríður, en tilfinningin var ansi góð þegar þau gátu loksins tilkynnt viðburð sem átti sér stað í raunheimum en ekki á vefnum.

„Ég get ekki lýst tilfinningunni þegar við gátum loksins tilkynnt hátíð síðastliðið vor sem hét „Restart Stages". Við opnuðum hátíðina á alþjóðlegum degi heilsu og buðum heilbrigðisstarfsfólki að upplifa fyrstu tónleikana. Í kjölfarið voru reist tíu útisvið. Þessi hátíð fagnaði endurkomu sviðslista og var hugsuð fyrir alla borgina."

Nánar er rætt við Hallfríði Þóru í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .