Spár sýna að tæknistörfum mun fjölga mjög mikið á næstu árum með fjórðu iðnbyltingunni. Áhrif þessa gætu verið mikil á stöðu kynjanna á vinnumarkaði, þar sem mikill meirihluti tæknistarfa er unninn af karlmönnum. Þetta var meðal þess sem rætt var á morgunverðarfundi Samorku og Origo og þeirri spurningu velt upp hvort fjórða iðnbyltingin sendi okkur tugi ára aftur í tímann hvað varðar jafnari kynjahlutföll í orku-, veitu- og upplýsingatæknigeiranum.

,,Þetta er þróun sem þarf að fylgjast vel með og gæta þess að hún verði ekki til þess að vinnustaðir verði einsleitari", segir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, sem stýrði fundinum. ,,Fjórða iðnbyltingin mun ekki bara þurrka út störf heldur mun hún skapa mörg ný og gera má ráð fyrir að störf í okkar geira breytist töluvert. Þessi störf eru jafnvel enn betri störf, betur launuð og fjölbreyttari. Það felast því einnig mikil tækifæri í fjórðu iðnbyltingunni, sem við þurfum að kynna betur fyrir ungu fólki og ekki síst konum."

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, Elín Gränz, stjórnarmaður í Vertonet, samtökum kvenna í upplýsingatækni, Íris Baldursdóttir, stjórnarmaður í Konum í orkumálum, og Hildur Katrín Rafnsdóttir, stjórnarmaður í FNS, samtökum náms- og starfsráðgjafa, héldu erindi á fundinum.