Ætla má að áhrif beinna launahækkana vegna samningsins verði að meðaltali 3-4% á ári og með spá um hóflegt launaskrið í kjölfarið mun launavísitalan hækka eitthvað meira, en þó má búast við að hækkanir verði nokkuð lægri en var að jafnaði á síðasta samningstímabili. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans .

„Gangi tillögur um lækkun tekjuskatts eftir munu ráðstöfunartekjur hækka meira en launatekjur, sérstaklega hjá tekjulægri hópum. Sé litið einangrað á áhrif kjarasamningsins á fyrsta rúma árinu, þ.e. tvær fyrstu launahækkanirnar og áætlaðar breytingar á tekjuskatti miðað við 350 þús. kr. mánaðartekjur segir lauslegt mat að launin muni hækka beint um 11,7% og ráðstöfunartekjur um 12,9% á þessu rúma ári, verði skattbreytingarnar komnar til framkvæmda. Miðað við verðbólguspár mun þetta fela í sér verulega kaupmáttaraukningu fyrir hópa með tekjur á þessu bili," segir í Hagsjánni.

„Í kjarasamningnum eru ákvæði um að laun geti hækkað umfram fyrr greindar launahækkanir á árunum 2020-2023 aukist landsframleiðsla á mann um meira en 1%. Þær hækkanir munu nýtast þeim tekjulægri meira en öðrum og verða meiri eftir því sem hagvöxtur er hærri."