Álverð hefur verið í lægð síðustu ár. Á fyrri hluta ársins 2008 fór verðið á tonni nokkuð yfir 3.000 dollara en síðan þá hefur það lækkað mikið þó auðvitað hafi verið sveiflur. Í byrjun þessa árs fór verðið niður í um 1.450 dollara en síðan þá hefur það smám saman hækkað. Núna stendur álverð í um 1.650 dollurum en meðalverð ársins er um 1.600 dollarar samkvæmt tölum London Metal Exchange (LME).

Samkvæmt spá LME mun álverð þokast hægt upp á við næstu ár. Gert er ráð fyrir það það verði 1.675 dollarar að meðaltali á næsta ári, árin 2018 og 2019 er því spáð það verði rétt ríflega 1.700 dollarar og árin 2020 og 2021 verði það á bilinu 1.760 til 1.808 dollarar. Spá Heimsbankans er á svipuðum nótum.

Veigamesta ástæðan fyrir lækkun álverðs er stóraukin framleiðsla í Kína. Frá árinu 2010 hafa Kínverjar næstum tvöfaldað framleiðslu á áli sem þýðir að í dag er næstum helmingur alls áls í heiminum framleiddur í Kína. Samkvæmt tölum frá Heimsbankanum framleiddu Kínverjar 31,4 milljónir tonn af áli í fyrra. Til samanburðar framleiddu íslensku álverin tæplega 860 þúsund tonn. Kínverjar framleiddu því 37 sinnum meira Íslensku álfyrirtækin.

Vöruhúsin fylltust

Will Savage, formaður bresku álsamtakanna Aluminium Federation, segir að í uppsveiflunni fyrir tæpum tíu árum hafi margir framleiðendur aukið framleiðsluna og ný álver verið byggð.

„Þetta olli því að offramboð varð á áli," segir hann. „Það ásamt niðursveiflu í efnahagslífi heimsins og hægari vexti en áður í Kína hefur valdið því að álverð hefur lækkað. Kínverski markaðurinn hefur mikil áhrif á vöruverð, ekki bara á álverð heldur verð á flestum hrávörum og öðrum varningi. Um tíma voru vöruhús LME yfirfullar. Á einum tímapunkti voru 10 milljónir tonna af áli lokaðar inni í vörugeymslum. Eitthvað þurfti að gera og þess vegna var unnið í því að losa um álbirgðirnar sem hefur þrýst verði niður."

Savage vill ekki taka svo djúpt í árinni að segja að Kínverjar stjórni álmarkaðnum.

„Kína hefur áhrif en ég held að enn sem komið er stjórni Kínverjar honum ekki. Það væri ekki rétt að nota það orð. Sú var tíðin að Kínverjar notuðu sína álframleiðslu alfarið sjálfir en eftir að dró úr vextinum heima fyrir hafa þeir selt ál í nokkru magni úr landi undanfarin ár. Þeir hafa selt ál á mjög lágu verði, meðal annars til Bandaríkjanna og Evrópu. Ég á von á að þetta breytist þegar efnahagsástandið lagast í Kína að þá muni framleiðslan fyrst og fremst mæta eftirspurn á innanlandsmarkaði."

Savage segir erfitt að spá nákvæmlega fyrir um það hver þróun álverð verði í framtíðinni og sérstaklega sé erfitt að spá langt fram í tímann.

„Eftirspurn eftir áli er sífellt að aukast en álverð mun ráðast að miklu leyti af því hvernig efnahagsástandið í heiminum þróast og þá sérstaklega hver þróunin verður í Kína og á Vesturlöndum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .