Bjarki Már Baxter var á dögunum ráðinn yfirlögfræðingur flugfélagsins WOW air. Hann segir starfið leggjast vel í sig. Ljóst sé að það verði nóg að gera, enda er félagið búið að stækka hratt. Bjarki segir að fyrsti dagurinn í nýju vinnunni hafi verið annasamur. „Maður þarf að komast hratt inn í hlutina. Maður vissi það svo sem.“

Bjarki spilar á gítar en tekur fram að hann geri það sem áhugamaður. Spurður hvort gítarinn sé eitthvað gripinn upp í partíum segir hann að það hafi ekki komið til þess ennþá. „Ég ætla að eiga það inni,“ segir hann léttur í bragði.

Auk þess að grípa í gítarinn er Bjarki lestrarhestur. En hann les ekki hvað sem er. „Ég hef ekki tíma fyrir skáldsögur. Ég vil helst detta inn í eitthvað gott sögutengt efni,“ segir Bjarki, og bætir því við að hann hafi helst gaman af því að detta inn í áhugavert tímabil eða áhugaverðar og stórar manneskjur. Þar megi meðal annars nefna þau Churchill og Thatcher.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .