Icelandair telur að Airbus 321 LR flugvélarnar séu góður valkostur til þess að leysa Boeing 757 vélarnar af hólmi. Þá sérstaklega vegna þess að notkun vélanna hentar samhliða notkun Boeing 737 og Boeing 767. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýuppfærðri fjárfestakynningu Icelandair.

Fjárfestar fá þar tækifæri til þess að spyrja félagið spjörunum úr. Þar er enn fremur spurt út í hve lengi Icelandair gerir ráð fyrir að Boeing 757 vélarnar verði hluti af flota félagsins. Félagið gerir ráð fyrir notkun þeirra að minnsta kosti út árið 2025.

Félagið segir að blandaður floti komi til greina en loka niðurstaða muni alltaf ráðast af markaðsaðstæðum. Enn fremur komi bæði til greina að uppfæra flota félagsins með nýjum og notuðum vélum.

Geymsla hverjar vélar kostar allt upp í 70 milljónir

Félagið áætlar að kostnaður þess að geyma eina flugvél á ári sé allt frá 300-500 þúsund dollarar, andvirði 42-70 milljónir króna. Enn fremur svarar Icelandair að Boeing 757-vélarnar og ein 737-vél eru geymdar á Íslandi, hinar MAX-vélarnar eru geymdar á Spáni.

Þegar fer að líða á veturinn verða þær hins vegar allar færðar til Spánar eða Bandaríkjanna og má gera ráð fyrir að veðurfar hafi þar áhrif.

Félagið hefur keypt átta MAX-8 vélar og fjórar MAX-9 vélar sem það á eftir að fá afhent.

Útboðslýsing vegna hlutafjárútboðsins verður birt á næstu dögum en útboðið á að fara fram 14.-15. september næstkomandi.