Flugvélaframleiðandinn Airbus hyggst segja upp 15.000 manns hjá fyrirtækinu að því er BBC greinir frá . Ástæðan fyrir niðurskurðinum er sú að fyrirtækið þarf að bregðast við niðursveiflunni sem skapaðist í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins.

Fyrirtækið hyggst segja upp 1.700 manns í Bretlandi og þúsundum fleiri í Þýskalandi og Spáni. Um það bil 134.000 manns vinna fyrir Airbus víðs vegar í heiminum en fyrirtækið hyggst klára niðurskurðaraðgerðir fyrir sumarið 2021.

Fyrirtækið vonast til þess að sátt náist innan fyrirtækisins um aðgerðirnar og að sumir starfsmenn muni samþykkja það að fara á eftirlaun fyrr.