Mér líst mjög vel á nýja starfið. Það leggst vel í mig að skipta um umhverfi og fara úr ríkisrekna umhverfinu yfir í meira lifandi umhverfi. Þetta er frábært tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og læra nýja hluti," segir Stella Thors, nýr starfsmaður á ráðgjafarsviði KPMG. Í starfi sínu mun Stella leggja megináherslu á ráðgjöf tengda áhættustýringu og stjórnarhætti upplýsingatæknimála með sérstakri áherslu á eftirlitsskyld félög.

„Ég hef verið að vinna við eitthvað tölvutengt nánast frá því að ég byrjaði að vinna. Hjá Teris var ég í prófunartengdum verkefnum og var meðal annars að fara yfir það sem forritararnir voru búnir að kóða. Þarna kviknaði áhugi minn á öryggismálum og hef ég verið í slíkum málum meira og minna síðan þá. Eftir að hafa lokið störfum hjá Teris færði ég mig yfir til Fjármálaeftirlitsins, þar sem ég starfaði sem sérfræðingur í áhættugreiningu í upplýsingatækni. Í þessu starfi sinnti ég meðal annars útgáfu á leiðbeinandi tilmælum um upplýsingakerfi eftirlitsskyldra aðila."

Utan vinnu eyðir Stella flestum stundum í faðmi fjölskyldunnar.

„Við erum mjög stór fjölskylda. Ég og maðurinn minn eigum tvö börn saman og svo átti hann fjögur börn fyrir, þannig að það er nóg að gera hjá okkur í fjölskylduskutli. Börnin eru á aldrinum 6-26 ára, en tvö elstu eru flutt að heiman. Þetta er því stór hópur og við höfum oft grínast með það þegar við höfum farið í ferðalög saman hér innanlands að við þurfum nánast rútu til þess að koma öllum fyrir í einn bíl."

Að sögn Stellu hafa hún og eiginmaður hennar mikinn áhuga á öllu sem viðkemur tækni. „Ég var að mig minnir ellefu ára gömul þegar ég ákvað að verða tölvunarfræðingur. Þau störf sem ég hef sinnt í gegnum tíðina tengjast tæknimálum og svo hef ég einnig sýnt tækninni mikinn áhuga í frítíma mínum. Þegar ég og maðurinn minn kaupum okkur nýjar græjur rífumst við hálfpartinn um það á léttu nótunum, hvort okkar fái að setja græjurnar upp. Við reynum að tæknivæða allt sem við mögulega getum og það má í raun segja að við séum hálfgert tækninörda heimili."

Svo er ég nýbyrjuð að stunda hjólreiðar. Við erum tvær vinkonur saman í hjólaþjálfun sem fer fram innandyra. Við stefnum svo á að kaupa okkur hjól í sumar og byrja þá að fara í lengri hjólaferðir. Ég hafði verið að leita mér að hreyfingu við mitt hæfi og þetta er í fyrsta skipti í svolítinn tíma sem ég hef fundið mér hreyfingu sem mér hefur þótt spennandi og skemmtileg."

Nánar er fjallað um málið í Viðskipblaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.