Alcoa Fjarðaál, AFL starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Ísland skrifuðu í dag undir nýjan kjarasamning sem gildir til þriggja ára og er afturvirkur frá 1. mars 2020.

„Helstu breytingar í nýjum samningi eru launahækkanir og vinnutímastytting, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um nýlega hjá hinum íslensku álverunum tveimur og í samræmi við Lífskjarasamninginn,“ segir í tilkynningu frá Alcoa.

Tor Arne Berg, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir í tilkynningunni að samningurinn feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls auk þess sem hann bæti jafnvægi milli vinnu og einkalífs sem sé mikilvæg breyta fyrir fjölbreyttan vinnustað. Samningaferlið hafi verið langt, ekki síst vegna aðstæðna sem COVID-19 skapaði, en samskipti við verkalýðsfélögin hafi engu síður verið góð og aðstoð frá Ríkissáttasemjara hafi hjálpað við að ná niðurstöðu.

Samningurinn verður kynntur starfsfólki á næstunni sem mun greiða um hann atkvæði.