Bandaríski herinn hefur farið fram á 2,7 milljarða króna úr ríkissjóði Bandaríkjanna til að bæta gamalt flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli. Fréttir þessa efnis vöktu athygli í vikunni enda hermdu fyrstu fréttir af vefriti hersins að hann hygðist hafa tímabundna aðstöðu á Íslandi.

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) fer með stóran hluta þeirra fasteigna sem áður hýstu herstöðina. Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir að í áætlunum félagsins hafi aldrei verið gert ráð fyrir því að bandaríski herinn eða utanríkisráðuneytið fyrir hönd NATO gæti viljað taka aftur yfir þær eignir sem eru í umsýslu félagsins.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, býst ekki við því að framkvæmdir við flugskýlið breyti miklu fyrir bæinn en bendir á að verktakar fái væntanlega vinnu við að gera upp skýlið. „Allt sem skapar aukna atvinnu hér, tökum við fegins hendi,“ segir hann.