Rúm vika er síðan aflandskrónufrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, varð að lögum. Með lögum um aflandskrónur er tryggt að hægt verði að taka næstu skref í átt að afnámi hafta óháð því hvort eigendur þeirra taki þátt í næsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Kjósi þeir að taka ekki þátt munu eignir þeirra enda á geymslureikningum sem bera nánast enga vexti og óljóst er hvenær þeir geta leyst þá út.

Aflandskrónulögin eru hluti af heildstæðri áætlun stjórnvalda um afnám hafta, en fyrsta skrefið fólst í samningum við kröfuhafa gömlu íslensku bankanna sem enduðu með því að þeir greiddu himinháar fjárhæðir í formi svokallaðra stöðugleikaframlaga.

Einhverjir vildu þó meina að hægt hefði verið að fá hærri fjárhæðir frá kröfuhöfum með því að þvinga þá til að greiða 39% stöðugleikaskatt, en slitabúin gátu sloppið við skattinn með því að greiða í staðinn stöðugleikaframlög sem námu í heildina lægri fjárhæð en skatturinn hefði gert. Bjarni segist ekki vera þeirrar skoðunar.

Fellur á fyrsta prófinu

„Þeir eru til sem hafa séð í þessari stöðu mikil tekjutækifæri fyrir íslenska ríkið en ég hef aldrei skipað mér í þann hóp. Ég hef alltaf horft á þetta verkefni sem greiðslujafnaðarvanda Íslendinga og hef beitt mér fyrir leiðum til að leysa hann. Við höfum reyndar gengið frekar langt í því, með því að krefjast þess að uppgjör slitabúanna og aðrar aðgerðir sem við viljum beita okkur fyrir hafi engin neikvæð áhrif á gengi krónunnar. Við vildum hlutleysa í vissum skilningi uppgjör slitabúanna hvað snertir úrgreiðslur til kröfuhafa á gengið. Fyrir þessu töldum við vera mjög góð rök, við höfum þegar tekið á okkur gríðarlega lækkun á krónunni og höfum þurft að ganga í gegnum mjög sársaukafullar aðgerðir til að lifa með lægra virði krónunnar," segir Bjarni.

„Mér finnst sá málflutningur um að við hefðum átt að ganga lengra með skattlagningu eða með öðrum aðferðum til að taka meira af eignunum falla á fyrsta prófinu, sem er: Hvort ertu í tekjuöflunaraðgerð eða ertu að leysa greiðslujafnaðarvandann? Ef þú hyggst eingöngu fara í tekjuöflunaraðgerð fyrir ríkissjóð ertu þegar búinn að koma þér í lagaleg vandræði og hefur þar með stóraukið hættuna á málsóknum. Hins vegar tel ég að stöðugleikaskatturinn hefði vel staðist ef á hann hefði reynt, ef slitabúin hefðu ekki valið leið stöðugleikaframlaganna, en það verður að horfa á þetta sem heildaraðgerð byggða á samsetningu stöðugleikaskatts og nauðasamninga með stöðguleikaframlögum. Heildaraðgerðin stenst prófið og það má segja að við höfum í því máli frekar verið að setja afarkosti. Við gátum ekki búið við það lengur að slitabúin sætu aðgerðarlaus hjá við gerð nauðasamninga, það þurfti einfaldlega að reka þau heim í réttina.“

Erfitt að segja til um tekjur ríkisins af aflandskrónuuppboðinu

Hverjar eru tekjur ríkissjóðs af aflandskrónuútboðinu?

„Útboðið sjálft fer fram í gegnum efnahagsreikning Seðlabankans. Gjaldeyrir frá Seðlabankanum verður boð- inn út og mögulegur gengishagnaður sem myndast mun þá myndast á rekstrarreikningi hans. Á vissan hátt mun það létta Seðlabankanum þann mikla halla sem hann hefur haft af því að halda úti þetta stórum gjaldeyrisforða, en á endanum ræðst gengishagnaðurinn af því hversu mikil þátttaka verður í útboðinu og á hvaða gengi nákvæmlega það fer fram. Þarna er vissulega um að ræða umtalsverðar fjárhæðir, þær hlaupa á tugum milljarða, en það gerir svosum líka vaxtakostnaður Seðlabankans vegna gjaldeyrisforðans. Hvort eða hvernig þetta mun skila sér í ríkissjóð er ótímabært að tala um.“