Grímur Sæmundsen stofnaði ásamt öðrum Bláa lónið hf. árið 1992 og er í dag stærsti hluthafi félagsins. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá. Rétt fyrir aldamótin sóttu um 150 þúsund gestir Bláa lónið heim en árið 2018 var fjöldinn kominn í 1,3 milljónir og í dag er Bláa lónið vafalaust þekktasti ferðamannastaður Íslands.

Reksturinn hefur gengið vel og félagið skilað góðum hagnaði undanfarin ár. Sem dæmi þá nam hagnaðurinn 31 milljón evra árið 2017 og ríflega 26 milljónum evra árið 2018. Þrátt fyrir að hagnaðurinn hafi dregist saman á milli þessara ára jukust tekjurnar úr 102 milljónum evra í tæplega 123 milljónir. Samfara auknum vexti hefur félagið fjárfest gríðarlega eða um 13 milljarða króna á síðustu 5 árum og skapað hundruð nýrra starfa. Nú er hins vegar að verða algjör viðsnúningur í rekstri Bláa lónsins. Ástæðan er heimsfaraldurinn sem nú geisar en hann kemur hvað þyngst niður á fyrirtækjum á ferðaþjónustu enda hafa mörg lönd einfaldlega lokað landamærum sínum og flugsamgöngur milli landa nánast í mýflugumynd. Líkt og flestir ættu að vita þá hefur heimsfaraldurinn þegar haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag og atvinnurekstur.

Algjörlega fordæmalaust

„Þessi staða er algerlega fordæmalaus,“ segir Grímur. „Á þrjátíu ára ferli mínum í ferðaþjónustunni hef ég aldrei upplifað neitt þessu líkt. Við munum öll eftir gosinu í Eyjafjallajökli og bankahruninu sem sannarlega hafði mikil áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi og hagkerfin í heild sinni. Áhrif þessara ytri þátta voru þó allt annars eðlis og ekki hægt að líkja saman við ástandið nú.“ Grímur þekkir vel til íslenskrar ferðaþjónustu eftir áratuga starf og sem formaður Samtaka ferðaþjónustunnar en þeirri stöðu gegndi hann frá árinu 2014 til 2018. Spurður hvaða áhrif hann telji að heimsfaraldurinn muni hafa á ferðaþjónustuna til frambúðar svarar Grímur: „Íslensk ferðaþjónusta mun ná sér aftur á strik. Við munum komast í gegnum skaflinn en því miður tel ég að árið í heild sinni, verði okkur og öðrum hagkerfum mjög erfitt. Væntanlega mun innlendi markaðurinn taka við sér á undan þeim erlendu sér í lagi þar sem heilbrigðisyfirvöld hérlendis hafa haldið einkar vel utan um aðgerðir síðustu vikna. Það er þó ljóst að markaðir beggja vegna Atlantshafsins þurfa að opnast og ferðalög að hefjast áður en að ferðaþjónustan á Íslandi nær að blómstra á nýjan leik.“

Tugir milljarða til ríkissjóðs

Grímur segir að við þær aðstæður sem nú ríki séu hin beinu og óbeinu áhrif greinarinnar að koma vel í ljós. „Það er ágætt að minna á það að ástæða þess að ríkissjóður stendur einstaklega vel um þessar mundir og getur stutt við fyrirtækin í landinu tímabundið, út af þessum heimsfaraldri nú, er m.a. sú staðreynd að ferðaþjónustan hefur skilað tugum milljarða í ríkissjóð ár hvert síðustu ár. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf um mikilvægi greinarinnar. Í þessu samhengi má nefna að skattspor Bláa lónsins nam 6 milljörðum króna í fyrra. Það er því afar mikilvægt og í raun nauðsynlegt fyrir ríkið að leggja ferðaþjónustunni nú lið, tímabundið, til að tryggja framtíðartekjuflæði í ríkissjóð.

Mér finnst aðgerðir ríkisstjórnarinnar góðar sem fyrsta skref. Að sama skapi finnst mér Seðlabankinn hafa komið sterkur inn og tímanlega. En eins og ég hef nefnt þá er gott að þessar aðgerðir sem kynntar hafa verið séu komnar fram en ég gæti trúað því að fyrir fyrirtæki, sem eru að berjast í bökkum nú þegar, þá hjálpi til dæmis frestun greiðslna þeim lítið. Það verður að fylgjast vel og náið með þróuninni og bregðast við tímanlega.“

Stöndum framarlega

Grímur segist ánægður með viðbrögð heilbrigðisyfirvalda hér heima vegna faraldursins. Aftur á móti hafi hann áhyggjur af þróuninni annars staðar. „Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hvernig sóttvarnalæknir , landlæknir og ríkislögreglustjóri hafa tekið á málum hér heima,“ segir hann. „Allar aðgerðir sem ráðist hefur verið í hafa verið vel útfærðar og landsmenn vel upplýstir um gang mála sem ég tel að skipti sköpum. Ég tel að við stöndum ansi framarlega í því hvernig við erum að taka á þessu verkefni og trúi því að við verðum fljót að vinna okkur í gegnum skaflinn. Því miður verður ekki sama sagt um viðskiptaþjóðir okkar austanhafs og vestan.“

Barist um athygli ferðamanna

Stjórnvöld hafa ákveðið að allir Íslendingar, 18 ára og eldri, fái stafrænt gjafabréf til að ferðast innanlands. Tilgangurinn er að hvetja fólk til að ferðast um landið og styrkja þannig íslenska ferðaþjónustu. Nánari útfærsla er í vinnslu í samvinnu við heildarsamtök ferðþjónustufyrirtækja. Áætlað er að þetta muni kosta ríkissjóð 1,5 milljarða króna. Enn fremur skuldbinda stjórnvöld sig til að veita 1,5 milljarða króna í markaðsátak fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verður fjármununum varið til kynningar á Íslandi sem áfangastað. Hefja á undirbúning að þessu strax og hrinda á átakinu í framkvæmd um leið og flugsamgöngur opnast aftur.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að mínu viti að tryggja öfluga viðspyrnu þegar birta fer til,“ segir Grímur. „Við búum að mikilli og góðri reynslu eftir að hafa farið saman í gegnum vel heppnaða herferð „ Inspired by Iceland “ sem Íslandsstofa leiddi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli um árið. Nú verður það hins vegar ekki bara Ísland sem mun reyna að ná athygli erlendra ferðamanna heldur einnig önnur markaðssvæði, sem við erum í samkeppni við. Því skiptir sköpum að við undirbúum okkur vel, nýtum reynslu okkar og tölum einni röddu þegar sóknarfæri gefst. Fyrirhugað markaðsátak greinarinnar og stjórnvalda mun leika lykilhlutverk í þessu efni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér