Í síðustu viku var tilkynnt var um samruna Nox Medical og FusionHealth , en sameinað félag mun bera nafnið Nox Health. Á sama tíma var greint frá því að samhliða sameiningu félaganna myndi Nox Medical í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins sækja nýtt hlutafé inn í reksturinn og að breytingar yrðu á hluthafahópnum. Eftir breytingar yrði félagið engu að síður enn að meirihluta í eigu stofnenda og lykilstjórnenda Nox og Fusion.

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, sem er í ítarlegu viðtali í nýútkomnu Viðskiptablaði, segir að þó svo að aukning hlutafjár hafi ekki verið nauðsynleg á þessum tímapunkti, telji stjórnendur sameiginlegs félags mikinn styrk felast í því að leggja af stað í næsta vaxtarferli með sterkan efnahag. Framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks kom að fyrrnefndri hlutafjáraukningu með því að leggja til 1.200 milljónir króna í nýtt hlutafé og eignuðust við það tæplega 13% hlut í Nox Health.

„Þegar við lögðum af stað í þetta samrunaverkefni fyrir um ári síðan fengum við til liðs við okkur sérfræðinga frá Kviku Securities Ltd í London. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri þeirra, úthugsaði með okkur plan og fannst verkefnið ákaflega spennandi, tækifærið stórt og vann með okkur í fjármögnunarhluta þess. Hann hnýtti þessa hnúta saman af mikilli fagmennsku og ég efast um að við hefðum náð að klára þetta jafn farsællega án aðkomu Gunnars og sérfræðinga hans hjá Kviku sem leitaði til innlendra sem erlendra fjárfesta.

Allir fjárfestarnir sem við kynntum verkefnið sýndu því mikinn áhuga en að endingu var það Alfa Framtak sem kemur með okkur í þessa vegferð. Þar skipti okkur ákaflega miklu máli að fá til liðs við okkur fjárfesta sem eru ekki einungis að koma með aukið fé inn í spennandi vegferð, heldur lögðum við á það áherslu að fá til liðs við okkur fagfjárfesti sem getur lagt okkur til sérþekkingu og reynslu við að vinna áfram með okkur í útfærslu þess sem stuðlar að skölun og áframhaldandi vexti sameinaðs félags. Starfsmenn Alfa Framtaks hafa mikla reynslu úr fjármálageiranum og ekki síður úr rekstri alþjóðlegra fyrirtækja og meðal annars á sviði þróunar, framleiðslu og dreifingu lækningavara. Við bindum miklar vonir við þann áhuga sem Alfa hefur á verkefninu, þeirra þekkingu og reynslu og hvernig þeir geta komið með annað og meira en bara fé að borðinu," segir Pétur.

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .