Helstu forystumenn í breska Verkamannaflokknum gagnrýna Jeremy Corbyn formann flokksins harðlega í kjölfarið á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og linnir ekki úrsögnum úr forystusveit flokksins.

Rekinn eftir ásakanir um uppreisn

Skipaði hann í morgun í 10 nýjar stöður í skuggaráðuneyti sínu eftir afsagnir helgarinnar, en fjölmargir forystumenn hafa til viðbótar sagt af sér í morgun. Miklar umræður hafa skapast á breska þinginu um stöðu mála í Verkamannaflokknum og má sjá hér hvernig hann hefur þurft að sæta aðkasti eigin þingmanna.

Hófust afsagnirnar eftir að hann rak, Hilary Benn, skuggaráðherra utanríkismála, sem sakaður er um að hafa ætla sér að rísa gegn Corbyn. Í Bretlandi er hefð fyrir því að helsti stjórnarandstöðuflokkurinn skipi talsmenn þeirra málefna sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjá um, sem litið er á sem arftaka ráðherranna ef til valdaskipta kæmi.

Þingmenn kjósa um vantraust

Talið er líklegt að Corbyn þurfi að standa af sér vantraustsyfirlýsingu innan flokksins, en hann hefur lýst því yfir að hann muni bjóða sig fram á ný komi til þess. Gagnrýnendur formannsins hafa helst legið honum á hálsi fyrir að hafa lagt lítið á sig í kosningabaráttunni fyrir hönd þeirra sem vilja að Bretland haldi áfram í Evrópusambandinu, og er honum kennt að hluta til um að kosningin fór sem fór.

Meira en 200 þúsund undirskriftir um vantraust á formanninn hafa safnast á netinu og gætu þingmenn flokksins tekið afstöðu til hennar jafnvel strax í dag. Leiðtogar stærstu verkalýðsfélaga landsins hafa kallað eftir því að flokkurinn standi sameinaður nú þegar upplausn væri í forystu Íhaldsflokksins og stjórnmálamenn þyrftu að ná saman um hagsmuni heildarinnar. Sögðu þeir í bréfi að Verkamannaflokkurinn þyrfti að vera sameinaður og einblýna á störf og réttindi verkafólks.

Hefðbundnir stuðningsmenn kusu gegn aðild

Flokkurinn er í ákveðinni tilvistarkreppu þar sem hann stóð sjálfur gegn úrsögn úr Evrópusambandinu, en svæði þar sem flokkurinn hefur verið sterkur kusu með yfirburðum gegn áframhaldandi aðild, eins og Sunderland, South Tyneside og Swansea.