Fagfjárfestasjóðurinn Algildi hagnaðist um 1.225 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 424 milljóna hagnað árið áður. Í ársreikningi félagsins segir að gengi hlutafjár hafi hækkað úr 1,81 krónu í 2,98 krónur á milli ára eða um 65%.

Fjármunatekjur námu 1.673 milljónum samanborið við 653 milljónir árið 2020. Vaxtagjöld og þóknanir voru um 397 milljónir.

Eignir sjóðsins nærri tvöfölduðust á milli ára og námu tæplega 3 milljörðum króna. Í lok síðasta árs vógu innlend skráð hlutabréf 72,7% af eignum sjóðsins. Sjóðurinn bókfærði afleiðusamninga á 171 milljón og vógu þeir 5,8 af eignum sjóðsins. Handbært fé í árslok 2021 nam 607 milljónum.

Algildi fjárfesti fyrir 1,1 milljarð á síðasta ári, samanborið við 815 milljónir árið 2020. Innborgað hlutafé nam 471 milljón króna í fyrra, samanborið við 341 milljón árið áður.

Sjóðurinn greiðir rekstrarfélaginu Algildi GP 1,5% umsýsluþóknun sem reiknast sem fast hlutfall af hreinni eign. Algildi GP bókfærði 35 milljónir króna í umsýsluþóknun vegna síðasta árs. Tveir starfsmenn störfuðu hjá félaginu á árinu og laun og launatengd gjöld námu 16,3 milljónum króna. Algildi GP, sem er í eigu sjóðstjórans Jóhanns Gísla Jóhannessonar, hagnaðist um 7,6 milljónir á síðasta ári.