Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði í dag fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur um úrvinnslu upplýsinga um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Meðal þess sem fram kom í svarinu er að Skattrannsóknastjóri hefur lokið rannsókn í alls 89 Panama-málum. 57 málum hefur verið vísað til héraðssaksóknara, í 18 málum hefur verið gerð sektarkrafa, og einu verið lokið með sekt. Í 9 málum hefur refsimeðferð verið felld niður.

Á grundvelli framsendra gagna frá Skattrannsóknastjóra stofnaði Ríkisskattstjóri tæp 200 mál og sendi öllum aðilunum bréf, en í október 2017 hafði 187 þeirra ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. RSK taldi sig ekki hafa lagaheimildir til frekari aðgerða, en taldi þó möguleika á að ná frekari upplýsingum, og sendi málin aftur til Skattrannsóknastjóra.

Í þeim málum sem rannsókn er lokið á nema vanframtaldir undandregnir skattstofnar samtals um 15 milljörðum króna, og eru aðallega fjármagnstekjur. Gjaldbreytingar RSK á grundvelli rannsókna byggðra á gögnunum nema um 500 milljón krónum, en óljóst er hversu mikið af þeirri álagningu muni innheimtast.