Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands studdu tillögu bankastjórans um að lækka vexti um 0.25 prósentustig á síðasta fundi nefndarinnar þann 16. október 2019, en fundargerðin var birt í dag á vef Seðlabankans.

Meðal þess sem nefndin fjallaði um áður en sjálf vaxtaákvörðunin var tekin til umræðu var staða innlendra fjármálamarkaða, fjármálalegan stöðugleika, horfur í heimsbúskapnum og utanríkisviðskiptum Íslands, innlendan þjóðarbúskap og verðbólgu.

Upplýsingar um þróun og stöðu innlendra þátta voru í samræmi við eða betri en reiknað var með á fundi nefndarinnar í ágúst, að þróun einkaneyslu undanskildir. Vísbendingar um einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi voru veikari sem gæfi til kynna að áfram myndi draga úr vexti hennar. Almennt voru nefndarmenn sammála um að nýleg þróun benti til þess að efnahagsumsvif hefðu verið þróttmeiri en gert hafði verið ráð fyrir. Raunhagkerfið væri nokkuð sterkt í ljósi þeirra efnahagsáfalla sem riðið hefðu yfir á fyrr hluta ársins.

Að mati nefndarmanna mátti að hluta til þakka það þeim skrefum sem höfðu verið tekin til að draga úr taumhaldi peningastefnunnar.

Hins vegar höfðu hagvaxtarhorfur fyrir heimsbúskapinn versnað frá síðasta fundi nefndarinnar. Fjallað var um uppfærða spá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) en í henni var hagvaxtarspá fyrir heiminn á næsta ári færð niður um 0,3-0,4 prósentustig. Sökum meiri óvissu um efnahag helstu viðskiptalanda Íslands gæti dregið hraðar úr innlendum hagvexti en nú væri búist við.

„Helstu rökin fyrir því að lækka vexti enn frekar voru þau að þótt núverandi staða efnahagsmála væri betri en spáð var væri aukin hætta á að hagvaxtarhorfur væru ofmetnar, einkum vegna verri efnahagshorfa erlendis, og óvissa hefði aukist. Því gæti verið rétt að lækka vexti til að draga úr hættu á frekari veikingu eftirspurnar. Verðbólga hefði þar að auki verið lítillega minni á þriðja ársfjórðungi en gert var ráð fyrir og horfur á að hún verði komin fyrr í markmið en talið var auk þess sem verðbólguvæntingar hefðu haldið áfram að lækka og gengi krónunnar hækkað að undanförnu,“ segir í fundargerðinni.

fundargerðarinnar segir að peningastefnan á næstunni muni að mati nefndarmanna ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.