Aðsókn í dagsferðir stærstu rútuferða landsins hefur minnkað þónokkuð í haust miðað við sama tíma fyrir ári að því er Morgunblaðið greinir frá. Mikil samkeppni veldur þó því að sum fyrirtæki sjá aukningu en önnur mikinn samdrátt, og virðist sem verðstríð ríki á markaðnum.

Þannig er sagt að Gray Line á Íslandi, sem rekið er af Allrahanda GL ehf., og Reykjavík Sightseeing Invest hafi tapað samanlagt milljarði króna á síðasta ári, en fyrirtækin tvö stefna að sameiningu sem nú býður græns ljós frá Samkeppniseftirlitinu.

Þórir Garðarsson stjórnarformaður fyrrnefnda fyrirtækisins segir fækkunina í norðurljósaferðir fyrirtækisins fylgja fækkun ferðamanna til landsins, svo miðað við það séu þeir sáttir við markaðshlutdeild sína. Fækkunin ferðamanna til landsins í október er rúmlega 18%, en tæplega 15% ef horft er á árið í heild.

Hjá Kynnisferðum og Bus Travel hefur aðsóknin hins vegar minnkað, eða að jafnaði um 30% í haust að sögn bæði Björn Ragnarssonar framkvæmdastjóra Kynnisferða og Vilhelms Sigurðssonar framkvæmdastjóra Bus Travel. „Aðsóknin í dagsferðir hjá okkur dróst saman strax eftir að WOW air varð gjaldþrota,“ segir Björn.

Björn vísar í 42% fækkun Bandaríkjamanna til landsins sem hafi verið fyrirferðamiklir viðskiptavinir hjá bæði Wow og Kynnisferðum. Hjörvar Sæberg Högnason framkvæmdastjóri Reykjavík Sightseeing segir aftur á móti að eftirspurnin hafi aukist um 15% hjá sínu fyrirtæki.