Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,98% í fimm milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag eftir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn var tekinn í vísitöluna MSCI .

Mesta veltan var með bréf Marels sem hækkuðu um 1,66% í 1,3 milljarða króna veltu og standa nú í 737 krónum á hlut. Gengi bréfanna hefur aldrei verið hærra.

Arion banki heldur áfram að hækka en bréf bankans hækkuðu um 3,23% í 905 milljóna króna veltu og stóðu í 70,3 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi Arion hefur nú hækkað um tæp 17% frá því á mánudaginn í síðustu viku.

Tryggingafélagið VÍS hækkaði um 3,26% í 416 milljóna króna viðskiptum. Fasteignafélagið Eik hækkaði einnig um 3% í 92 króna veltu og standa bréf þess nú í 7,55 krónum á hlut.