Guðmundur Hreiðarsson er einn þriggja stofnenda Aiia, sem MasterCard keypti á dögunum. Aiia hefur sérhæft sig í opnum bankalausnum sem veita beintengingu að gögnum banka í gegnum eina gátt og gerir viðskiptavinum þannig kleift að þróa nýjar stafrænar lausnir á þeirra grunni.

Hann segir Aiia ekki ein um hituna en það sem aðgreinir þau frá flestum keppinautum sé að allar þeirra vörur eru hannaðar á grunni persónuverndar.

„Við meðhöndlum aðeins þau gögn sem við þurfum og ekkert umfram það. Það er í DNA-inu okkar að virða friðhelgi neytendanna sem eiga gögnin á meðan margir keppinauta okkar hafa verið einskonar svartir kassar þar sem gögnin fljóta inn og enginn veit hvað gert er við þau. Okkar gildi snúast um persónuvernd, öryggi og reglufylgni. Við höfum kafað mjög djúpt til að tryggja að við séum alltaf réttu megin við regluverkið og að styðja það frekar en að taka því sem leiðinlegum kvöðum. Við höfum jafnframt tekið þann pólinn í hæðina að vinna með bankageiranum, í stað þess að vinna á móti honum, því í okkar huga er það eina leiðin til þess að þetta lukkist og bankarnir skilji hver þeirra mögulegi ávinningur er," segir hann og bætir við:

„Það sem kannski er mest um vert er áhersla okkar á gæði umfram magn. Fyrir þremur eða fjórum árum komu mörg fyrirtæki fram á sjónarsviðið sem sögðust styðja við fleiri þúsund banka, á meðan við vorum kannski með um 300, en það virkaði eiginlega ekkert hjá þeim sem studdu við þúsundir banka á meðan við höfum alltaf einblínt á að það sem við byggjum virki. Við höfum því fært kvíarnar mjög hægt út því ef lausnirnar virka ekki þá mun fólk aldrei treysta því sem við erum að gera og þá munum við aldrei ná árangri sem fyrirtæki."

Nánar er rætt við Guðmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .