Alma íbúðafélag hefur komist að samkomulagi um kaup á fasteignum að Elliðabraut 4-10 í Norðlingaholti fyrir allt að 5.080 milljónir króna. Um er að ræða allt að 83 íbúðir sem Alma fær afhentar á næstu níu mánuðum, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins

„Kaupin eru ýmsum fyrirvörum háð en stefnt er að því að aflétta þeim á næstu sex vikum. Kaupin eru í samræmi við stefnu félagsins um að stuðla að auknu framboði leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningunni. Ekki kemur fram hver seljandinn er en fasteignirnar eru auglýstar til sölu á heimasíðu byggingafélagsins Þingvangs.

Alma íbúðafélag var keypt af Langasjó ehf. á 11 milljarða króna í byrjun árs. Langisjór er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.

Langisjór á fjárfestingafélagið Brimgarða sem er nú orðið dótturfélag Ölmu. Brimgarðar eru stærsti hluthafi fasteignafélagsins Eikar ásamt því að eiga stóran hlut í bæði Regin og Reitum.

Á fimmtudaginn síðasta var tilkynnt um að María Björk Einarsdóttir hafi látið af störfum sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags og að Ingólfur Árni Gunnarsson hafi verið ráðinn eftirmaður hennar. Degi síðar var María Björk tilkynnt sem nýr fjármálastjóri Eimskips.