Alþjóðasamningur um viðskipti, sem gengur á ensku undir heitinu The Trade Facilitation Agreement, hefur loks gengið í gildi eftir 12 ára ferli þar sem 110 ríki hafa loks samþykkt samninginn.

TFA samningurinn er einn af fáum alþjóðasamningum sem hafa komið út úr Doah viðræðunum sem voru settar af stað í höfuðborg Qatar árið 2001, en flestir fríverslunarsamningar sem þá var hafist handa við að semja um hafa runnið út í sandinn.

Langur listi umbóta á rekstrarumhverfi fyrirtækja

Samningurinn var loks samþykktur á fundi í Bali árið 2013, en það er núna fyrst sem samningurinn hefur verið samþykktur af öllum löndunum svo hann geti tekið gildi.

Roberto Azevedo, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hefur kallað samninginn „stærstu umbætur í heimsviðskiptum í heila kynslóð."

Segir hann að samningurinn muni hafa meiri áhrif heldur en afnám allra tolla og innflutningsskatta, en hann felur í sér langan lista umbóta sem aðildarríkin skuldbinda sig til að undirgangast, þar á meðal auðveldari aðgang fyrirtækja að upplýsingum, lækkun gjalda og hraðari og annað sem einfaldar rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Hagfræðingar samtakanna hafa áætlað að samningurinn muni minnka viðskiptakostnað um 14,3% en ábatinn verði mestur fyrir þróunarríkin.