Líftæknifyrirtækið Alvotech tilkynnti í dag að það hefði tryggt sér frekari fjármögnun frá tveimur fjárfestum fyrir að allt að 250 milljónir dala eða um 32 milljarða króna, að því gefnu að samruni við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II (OACB) gangi í gagn.

Í tilkynningu Alvotech kemur fram að fjármögnunarlínurnar séu meðal annars til þess fallinar að mæta mögulegum innlausnum hluthafa sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) við samrunann.

Sjá einnig: Alvotech setur fyrsta lyfið á markað í Evrópu

Alvotech hefur annars vegar tryggt sér loforð um 150 milljóna dala fjármögnun með sölu hlutafjár til vogunarsjóðsins YA II PN, sem er í stýringu hjá Yorkville Advisors Global. Hins vegar hefur íslenska líftæknilyfjafyrirtækið tryggt sér bindandi lánsloforð frá Sculptor Capital Management fyrir 75-125 milljónir dala en endanleg fjárhæð veltur á hvað Alvotech safnar miklu fjármagni við samrunann.

Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að Alvotech og OACB hafi komist að samkomulagi um að breyta skilyrði fyrir samrunanum um lágmarks áskriftarloforð. Fyrir vikið mun 175 milljóna dala beina hlutafjáraukningin (PIPE-fjármögnun) sem Alvotech hefur þegar tryggt sér auk framangreinds lánaloforðs frá Sculptor uppfylla umræddu skilyrði.