Bandaríski smásölurisinn Amazon hefur fært út kvíarnar á þessu ári, í miðjum heimsfaraldri. Á fyrstu tíu mánuðum ársins réð fyrirtækið um 427 þúsund starfsmenn, um 1.400 starfsmenn á dag, og vinna alls nú 1,2 milljónir manna hjá fyrirtækinu.

Því hefur fjöldi starfsmanna aukist um helming á undanförnu ári, flestir starfsmenn vöruhúsa Amazon auk hugbúnaðarsérfræðinga. Áðurnefndar tölur taka ekki tillit til þeirra 100 þúsund tímabundinna starfsmanna sem hafa verið ráðnir fyrir jólavertíðina, að því er segir í frétt New York Times.

Ekkert annað bandarískt fyrirtæki hefur aukið starfsmannafjölda sinn jafn hratt og Amazon gerir nú um mundir, þróunin er einstök. Segir í frétt New York Times að nærtækasta dæmið sé þegar Walmart, stærsti vinnuveitandi heims, jók starfsmannafjölda sinn um 230 þúsund innan árs fyrir um tveimur áratugum. Til þess að finna sambærilegar tölur við Amazon þarf að leita aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar.

Amazon hyggst eyða yfir 500 milljónum dollara , andvirði 67 milljarða króna, í bónusgreiðslur fyrir framlínustarfsmenn félagsins. Þeir sem starfa hjá fyrirtækinu allan desembermánuð munu hljóta 300 dollara eingreiðslu, andvirði 40 þúsund króna. Hlutastarfsmenn fá 150 dollara eingreiðslu.