Örgjörvaframleiðandinn AMD er í yfirtökuviðræðum við keppinaut sinn Xilinx sem gætu leitt til samnings strax í næstu viku, samkvæmt heimildum Wall Street Journal . Samningurinn er sagður geta hljóðað upp á yfir 30 milljarða dala, ígildi yfir 4 þúsund milljarða króna.

AMD er með stærstu fyrirtækjum heims á sínu sviði og hefur komið vel út úr heimsfaraldrinum og þeirri auknu eftirspurn sem hann hefur skapað eftir tölvubúnaði, en auk þess að framleiða íhluti í borð- og fartölvur framleiðir fyrirtækið hluti sem notaðir eru í leikjatölvur á borð við Xbox og Playstation.

Hlutabréf félagsins hafa hækkað um allt að 89% það sem af er ári, og markaðsvirði þess er nú rúmir 100 milljarðar dala eða um 14 þúsund milljarðar króna. Xilinx hefur hækkað mun hóflegar, um 9%, og stendur nú í tæpum 26 milljörðum dala.

Yfirtakan á Xilinx er sögð myndu jafna leikinn milli AMD og helsta keppinaut þess til margra ára, Intel. Örgjörvar Xilinx eru helst notaðir í fjarskiptabúnaði, gagnaverum og bíla- og geimiðnaðinum. Einn stærsti viðskiptavinur Xilinx hefur verið kínverski tæknirisinn Huawei, og hafa viðskiptadeilur Kína og Bandaríkjanna og viðskiptabann á Huawei því komið illa við félagið.