Andrea Olsen, lögmaður, hefur gengið til liðs við Deloitte og mun starfa sem liðsstjóri á skatta- og lögfræðisviði hjá félaginu.

Andrea lauk laganámi við Háskólann í Reykjavík árið 2009 og hefur starfað hjá LOGOS lögmannsþjónustu undanfarin átta ár. Hún hefur  meðal annars sérhæft sig í félagarétti, samrunum og yfirtökum, fjárhagslegum endurskipulagningum og fjármögnun fyrirtækja. Áður en Andrea gekk til liðs við LOGOS starfaði hún hjá Creditinfo og Icelandair.

„Það er mikill akkur í því fyrir okkur að fá Andreu í hópinn. Við leggjum mikla áherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og trausta og áreiðanlega lögfræðiráðgjöf,“ segir Bjarni Þór Bjarnason, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte.

„Andrea hefur undanfarin ár starfað hjá stærstu lögmannsstofu landsins og kemur til okkar með mikla og góða reynslu sem mun nýtast Deloitte vel í þeim verkefnum sem framundan eru.“