Þetta eru mestu vonbrigði á mínum ferli að hafa endað þetta með þessum hætti. Það er búið að fjárfesta gífurlega í þessu flugfélagi og við vorum komin á mjög spennandi stað að geta aukið okkar starfsemi,“ segir Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Air, en flugfélagið óskaði eftir að fara í greiðslustöðvun í byrjun vikunnar.

Mjög erfið ákvörðun

Andri bendir á að blikur séu á lofti í flugheiminum, olíuverð hafi hækkað hratt en flugfargjöld lækkað. „Í vetur hafa fargjöld aldrei verið lægri í sögunni, bæði í Evrópu og yfir Atlantshafið,“ segir Andri. „Það kom að þeirri spurningu, hvort maður tryði á að setja fleiri fleiri milljarða inn í þetta til viðbótar og hvort það myndi duga til eða hvort maður ætti að segja stopp núna,“ segir Andri.

„Það var mjög erfið ákvörðun, og vond að öllu leyti. Það eru gríðarleg vonbrigði gagnvart öllu því góða starfsfólki sem er búið að vinna náið með okkur árum saman og öllum þeim fjölda farþega sem hafa ferðast með okkur. Við vorum búin að byggja upp mjög gott nafn í Skandinavíu undanfarin ár. Það var mikil eftirsjá af því að geta ekki haldið því góða starfi áfram þar.“

Ætluðu að vaxa hratt

Primera Air einbeitti sér lengi vel að leiguflugi og að stórum hluta fyrir ferðaskrifstofur í eigu Primera Travel Group, sem einnig eru í eigu Andra Más. Frá árinu 2013 fór Primera Air í auknum mæli að færa sig út í almennan flugrekstur. Flugfélagið bætti svo verulega í á síðustu tveimur árum og stefndi á enn frekari vöxt, tvöföldun flugflota félagsins á þessu ári og því næsta þannig að flotinn teldi 27 flugvélar í árslok 2019. Stefnt var að því að taka á móti átta Airbus A321neo flugvélum á þessu ári og tíu Boeing 737 MAX 9 á næsta ári.

Töf varð svo á afhendingu hluta nýju Airbus-vélanna á þessu ári sem Andri segir hafa verið stærsta áfallið í rekstrinum. Í tilkynningu sem stjórn Primera Air sendi frá sér á mánudaginn kom fram að leiga annarra flugvéla og breytingar hafi kostað flugfélagið tvo milljarða króna. „Um leið og Airbus-vélarnar byrjuðu að fljúga var hagnaður á öllu flugi með þeim. En allar þær breytingar sem við þurftum að gera og áætlanir fram að því urðu alveg gríðarlega kostnaðarsamar. Það ofan á annað var dropinn sem fyllti mælinn,“ segir Andri. Þá missti Primera Air flugvél úr flota sínum í tíu mánuði árið 2017 vegna tæringar.

Viðgerðin hafi kostað um 1,5 milljarða króna. „Þó svo að við eigum einhverjar kröfur á tryggingarfélög þá veit ég ekki hvort eða hvenær þær muni innheimtast,“ segir Andri. Í viðtölum við Fréttablaðið og Morgunblaðið þann 12. september sagði Andri að Primera Air væri við það að ljúka 40 milljóna evra, 5,2 milljarða króna, brúarfjármögnun þar til flugfélagið gæti innleyst söluhagnað af nýjum Boeing flugvélum næsta vor.

„Það breyttust forsendur og eðlilega var því sjálfhætt þegar við tókum þessa ákvörðun,“ segir Andri nú. Primera Air hélt áfram að greina frá nýjum flugleiðum á næsta ári fram í september. Stefnt var að því hefja áætlunarflug yfir Atlantshafið frá Berlín, Brussel, Frankfurt og Madríd á árinu 2019. Primera Air hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna á þessu ári frá Stansted, Birmingham og París. Fallið var frá áætlunarflugi á nokkra áfangastaði, m.a. vegna tafa við afhendingu flugvéla. Þá hafði Primera greint frá því að hætta ætti flugi frá Birmingham, bæði innan Evrópu og yfir Atlantshafið frá lokum október, a.m.k. fram á næsta ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .