Annar rússnesku flugmanna herþotunnar sem skotin var niður yfir Sýrlandi í gær er sagður á lífi og í fylgd sýrlenska hersins. Flugmaðurinn er að sögn særður og á leið til rússneskra yfirvalda. Þetta kemur fram á blaðamannafundi sendiherra Rússlands í Frakklandi.

Fréttir bárust af því í gærmorgun að tyrkneski loftherinn hefði sent tvær F-16 þotur til móts við rússneska Su-24 sprengjuflugvél. Tyrkir fullyrtu að rússneska þotan hefði rofið lofthelgi Tyrklands, og að flugmenn vélarinnar hefðu hvorki ansað né brugðist við ítrekuðum viðvörunum. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið .

Vélin rússneska átti að halda sína leið til Sýrlands, þar sem hún hefði átt að gera sprengjuárás á bækistöðvar hryðjuverkasamtakanna ISIS sem hafa sveipað að sér völdum og landsvæði í Sýrlandi.

Flugmenn rússnesku vélarinnar skutu sér út í fallhlífum áður en vélin brotlenti. Annar þeirra var líflátinn af sýrlenskum uppreisnarliðum, sem strítt hafa við ríkisstjórn Bashar Al-Assad síðan borgarastyrjöld þarlendis hófst 2011. Myndbandi var dreift um netið þar sem uppreisnarliðar hópuðust kringum látinn flugmanninn og þökkuðu guði.

Gögn frá Wikileaks herma að í skýrslu tyrknesku ríkisstjórnarinnar til Ban Ki-Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sé sagt frá því að rússneska herþotan hafi aðeins rofið tyrkneska lofthelgi í rúmar 17 sekúndur áður en eldflaugum var skotið að henni.

Hörð viðbrögð úr Kremlin

Miðillinn Russian Times hefur greint frá því að bæði forseti Rússlands, Vladimir Pútín, og forsætisráðherra, Dmitri Medvedev, hafi verið harðorðir um ríkisstjórn Tyrklands í kjölfar árásarinnar.

Pútín sagði í yfirlýsingu í gær að honum fyndist Tyrkland með gjörðum sínum hafa stungið rýting í bakið á Rússlandi. Auk þess sakaði hann ríkisstjórn landsins um að verja ISIS og þar með hagsmuni sína, en vitað er að ISIS selur olíu fyrir sex milljarða króna mánaðarlega til tyrkneskra smyglara. Viðskiptablaðið fjallaði um málið áður.

Medvedev snerti á sama punkti og sagði árásina ekki koma sér á óvart, í ljósi „beinna hagsmunatengsla tyrkneskra embættismanna við olíuflutning frá ISIS.” Einnig lýsti hann því yfir að ríkisstjórn Rússlands íhugaði að hætta við mikilvægar viðskiptaáætlanir sem tengdust Tyrklandi, sem og að banna tyrkneskum félögum aðgang að rússneskum mörkuðum.

Ríkisstjórn Rússlands hefur þegar gefið út aðvörun til íbúa landsins þar sem mælt er gegn því að ferðast til Tyrklands sökum hryðjuverkaógnar. Ferðaþjónustur hafa þá margar hverjar hætt við ferðir sínar til Tyrklands fyrir vikið.

Hafa ber í huga við lesturinn að Russian Times hefur á tíðum verið sakað um að vera málgagn Kremlinarstjórnar og áróðursvél ráðamanna.