Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) hefur hætt við áform um að umreikna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjötvörur frá Evrópusambandinu yfir í ígildi kjöts með beini, en slíkur umreikningur hefði skert tollfrjálsan innflutning um allt að þriðjungi.

Þetta kemur fram í svari ANR við erindi Félags atvinnurekenda frá því í byrjun maí á síðasta ári, en svarið barst félaginu í árslok eftir að erindið hafði verið margítrekað.

Í tilkynningu, sem ráðuneytið birti á vef sínum í byrjun maí 2018, sagði að unnið væri að því að hrinda þessum umreikningi í framkvæmd sem „mótvægisaðgerð“ við tollasamning Íslands og ESB, sem tók gildi 1. maí síðastliðinn. Samkvæmt samningnum fara tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjöt mjög stækkandi næstu fjögur ár. FA gagnrýndi áformin um skerðingu kvótanna með umreikningi harðlega í erindi sínu til ráðuneytisins og benti á að í tollasamningnum væri hvergi kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur skuli miðaðir við kjöt með beini.

Samningurinn tæki því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. FA benti einnig á að slíkir innflutningskvótar fyrir kjöt, byggðir á milliríkjasamningum, hefðu verið í gildi á Íslandi í 23 ár, eða frá því WTO-samningurinn tók gildi árið 1995. Alla tíð hefði verið miðað við innflutning á kjöti hvort heldur er með eða án beins.