Bandaríska tæknifyrirtækið Apple boðar rafrænan kynningarfund þriðjudaginn 13. október næstkomandi þar sem talið er að félagið muni kynna nýja línu iPhone farsíma sinna, þar á meðal þá fyrstu sem styðji við 5G tæknina.

Í september hélt fyrirtækið sem þekkt er fyrir ýmsar vinsælar og vel hannaðar tæknivörur rafrænan kynningarfund en þar voru engir farsímar undir hinu vinsæla vörumerki félagsins, iPhone, kynntir til sögunnar.

Þess í stað kynnti félagið nýjar iPad spjaldtölvur, Apple Watch snallúrin og áskriftarþjónustur, en nú er búist við að á nýboðuðum kynningarfundi verði upplýst um nýjustu farsímana í aðdraganda hátíðanna. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum mynduðust biðlistar hér á landi eftir snjallúrunum en einnig hefur mikið verið talað um gott gengi hlutabréfa félagsins.

Þó gengi bréfa félagsins hafi lækkað það sem af er degi í dag um 1,14%, niður í 115,17 dali þegar þetta er skrifað, þá hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 23% síðustu þrjá mánuði á sama tíma og Dow Jones Industrial Average vísitalan hafi hækkað um 7,2%.

Fjármálastjóri Apple, Luca Maestri staðfesti í júlí að Apple byggist við nokkurra vikna töfum á því að félagið myndi kynna nýjustu vörulínu sína af iPhone símum miðað við fyrra ár þegar félagið kynnti síma sína seint í september.