Það sem af er ári hefur árangurslaust fjárnám farið fram hjá félaginu Norðangarra ehf. en félagið hét áður Truenorth ehf. Rekstur Truenorth var árið 2019 færður á nýja kennitölu ásamt helstu eignum. Það gæti því reynst félaginu Comrade Film ehf. (CF) erfitt að reyna að innheimta 20 milljónir króna sem því voru nýverið dæmdar úr hendi Norðangarra.

Árið 2013 gerðu CF og Norðangarri, sem hét þá Truenorth Ísland ehf. en núverandi nafn verður nýtt til aðgreiningar frá nýja félaginu, samkomulag um að hið fyrrnefnda skyldi starfa sem undirverktaki hjá hinu síðarnefnda. Samningurinn var saminn af lögmanni sem vann fyrir Norðangarra. Bæði félögin starfa á sviði kvikmynda-, myndbandaog auglýsingagerðar. Hlutverk CF var að laða erlend verkefni í geiranum hingað til lands og skyldi félagið fá tæplega 1,2 milljónir króna mánaðarlega fyrir það. Til viðbótar ætluðu félögin að skipta hagnaði af verkefnunum á milli sín, „að teknu tilliti til innanhúskostnaðar“, þannig að Norðangarri fengi 70% en CF 30%.

Eins og lesendur hafa máske getið sér til um, í ljósi þess að dómsmál þurfti til að höggva á hnútinn milli aðila, þá súrnaði sá ráðahagur eilítið eftir því sem á leið. Af dóminum má ráða að samstarf aðila hafi vissulega gengið með ágætum en CF hafi annars vegar gengið illa að fá greitt samkvæmt samningnum og hins vegar haft athugasemdir við útreikninga Norðangarra. Til að mynda barst uppgjör vegna ársins 2015 í ágúst 2016 og uppgjör ársins 2016 skilaði sér til byggða í byrjun október 2017.

Samkomulaginu var sagt upp á sumarmánuðum 2017 og í kjölfarið hóf félagið vinnu við að kanna útreikninga að baki greiðslum til sín. Var það mat þeirra að frádráttarliðir, sem ýmist voru kallaðir „overhead“ eða „yfirstjórnar- og innanhússkostnaður“, hefði verið of hár. Að auki taldi félagið sig eiga inni greiðslur vegna uppsagnarfrests auk þess að í uppgjörin hafi vantað tiltekin verkefni sem unnin hafi verið í sameiningu aðila. Alls hljóðaði dómkrafan upp á rúmar 94 milljónir króna auk dráttarvaxta frá ársbyrjun 2015.

Norðangarri krafðist á móti sýknu þar sem félagið taldi sig eiga skaðabótakröfu á hendur CF þar sem síðarnefnda félagið hefði tekið að sér sjálfstæð verkefni sem með réttu hefðu átt að falla undir samkomulagið. Undir rekstri málsins aflaði Norðangarri matsgerðar dómkvadds matsmanns en með henni var reynt að varpa ljósi á það hver innanhússkostnaðurinn hefði með réttu átt að vera.

Óglögg og vonlítil uppgjör

Að mati héraðsdóms bar umrætt samkomulag merki þess að um launþegasamband væri að ræða þrátt fyrir að heiti samkomulagsins væri „verktakasamningur“. Því til stuðnings benti dómurinn á að samningurinn kvæði á um að eigandi og eini starfsmaður CF skyldi vinna í þágu Norðangarra og leggja félaginu til viðskiptasambönd sín á erlendri grund, meðal annars í Frakklandi, Suður-Kóreu og Japan, og yrði ekki annað ráðið en að verkefnum hefði fjölgað nokkuð eftir að samstarfið komst á. Norðangarri tók á móti á sig að taka við greiðslum fyrir verkefnin og utanumhald um þau.

„Benda má á að mjög hlýtur að orka tvímælis í ljósi samningsskyldna [CF] gagnvart [Norðangarra] að rétt hafi verið að draga hinar mánaðarlegu greiðslur til [CF] frá við uppgjör aðila eins og gert var,“ sagði í dóminum. Þar sem ekki var á því byggt af hálfu CF var ekki fjallað frekar um það. Aftur á móti var allur vafi um túlkun á samningnum felldur á Norðangarra í ljósi þess að texti samningsins var skrifaður nær einhliða af fulltrúum félagsins.

„Þannig telur dómurinn að þó að í þriðju grein samstarfssamnings aðila sé tilgreint að draga beri frá við uppgjör aðila innanhússkostnað þá sé alveg óljóst hvernig beri að skilja það hugtak í þessu sambandi. […] Fyrir liggur í málinu að uppgjör [Norðangarra] sem honum bar að standa skil á gagnvart [CF] komu alltof seint þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni af hálfu [CF]. Sömuleiðis eru uppgjörin óglögg og á köflum vonlítið að botna í því hvernig beri að skilja þau,“ segir í dóminum.

Þar sagði enn fremur að „nákvæmlega rétta reikningslega niðurstöðu eða uppgjör um viðskipti aðila [væri] ómögulegt að finna“. Var það niðurstaða dómsins, í ljósi þeirrar óvissu, að ákvarða um uppgjör að álitum en í því sambandi var litið til þess að Norðangarri viðurkenndi staka kröfuliði. Vegna óvissu um fjárhæðir og einstaka gjalddaga var hin dæmda upphæð, tuttugu milljónir króna, látin bera dráttarvexti frá höfðun málsins í mars 2018. Málskostnaður var ákveðinn fjórar milljónir króna til CF.

Beiðni um aðför samkvæmt dóminum – sá var kveðinn upp í janúar 2021 en hefur enn ekki verið birtur á vef dómstólanna – var send sýslumanni fyrir viku síðan. Sú gerð reyndist ekki bera ávöxt. Síðasti ársreikningur sem Norðangarri skilaði var fyrir rekstrarárið 2016 en samkvæmt honum voru rekstrartekjur rúmlega 4,1 milljarður króna og hagnaður ársins rúmlega 111 milljónir króna. Eignir í árslok voru metnar á tæpar 338 milljónir og eigið fé var jákvætt um 162 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .