Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Landsréttar þess efnis að mistök sem gerð voru við þinglýsingu skjals árið 1993. Sú niðurstaða felur í sér að það mun reynast erfitt fyrir félagið HM2 hótel ehf. (HM2) að reisa hótel á lóðinni Hallarmúla 2.

Forsaga málsins er alllöng en við skulum hefja leik árið 2018. Þá var lóðinni Hallarmúla 2, þar sem Tölvutek var áður til húsa, skipt út úr lóðinni Suðurlandsbraut 2, þar sem Hilton Nordica stendur, á grundvelli stofnskjals frá árinu 2007. Lóðaleigusamningur var gerður um lóðina í desember 2017.

Í desember 2018 var breytt deiliskipulag reitsins auglýst. Heimild var veitt til að auka byggingarmagn og hæðafjölda. Á lóðinni átti að rísa allt að fimm hæða hótel, bílastæði fjarlægð af yfirborði lóðarinnar og bílakjallari kæmi í stað þess. Þar kom hins vegar babb í bátinn því Reitir – hótel ehf. (RH), eigandi lóðarinnar að Suðurlandsbraut 2, krafðist þess að deiliskipulagsbreytingin yrði felld úr gildi þar sem hún gengi gegn þinglýstum heimildum.

Þrætuefni málsins var kvöð sem lýst var á lóðina Hallarmúla 2 árið 1974. Á Hallarmúlasvæðinu stóð áður svokallaður Ford-skáli. Við skiptinguna var meðal annars lýst á lóðina kvöð um forkaupsrétt þáverandi eiganda Suðurlandsbrautar 2 auk kvaðar um leyfilega starfsemi á lóðinni. Leyfileg starfsemi var eftirfarandi: „A. Almenn verzlun, svo sem verzlun með varahluti í bifreiðar og önnur ökutæki, enda brjóti sú starfsemi ekki í bága við rekstur hótelsins eða eiganda þess. B. Verzlun með nýjar bifreiðar. C. Verzlun með notaðar bifreiðar.“

Kvöðinni aflýst fyrir mistök

Téður forkaupsréttur lifði í tvo áratugi eða allt til ársins 1993. Það ár féllu þáverandi eigendur réttarins, Flugleiðir hf., frá því að neyta hans og var þeirri kvöð aflýst af eigninni. Við þann gjörning var hins vegar öðrum kvöðum sem á lóðinni hvíldu einnig aflýst úr þinglýsingarbókum.

Ári síðar afsöluðu eigendur Ford-skálans eigninni til Pennans sf. og var kvaða sem á lóðinni hvíldu getið þó að þær hefðu verið felldar úr bókum þinglýsingastjóra. Síðar meir færðist eignarhald á henni til B. Pálsson hf., við nafnbreytingu Pennans sf., og árið 2017 til HM2 sem síðan afsalaði henni til HM2.

Í málinu krafðist RH. þess að niðurfelling umræddrar kvaðar yrði leiðrétt og hún færð aftur í þinglýsingabók. Héraðsdómur hafnaði kröfum félagsins en Landsréttur sneri þeim úrskurði við. Málið var að endingu kært til Hæstaréttar og fékkst kæruleyfi.

HM2 taldi að ekki ætti að fallast á kröfuna. Var meðal annars á því byggt að RH hefði ekki beint erindi til þinglýsingastjóra áður en málinu var stefnt til dómstóla. Einnig taldi HM2 að mistök hefðu verið gerð í upphafi, það er árið 1975, og lagaheimild hafi skort fyrir því að þinglýsa kvöðinni á eignina. Skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur hafnaði þeim kröfum og féllst þess í stað á kröfu RH um að færa skildi kvöðina aftur í bækur sýslumanns. Að auki var HM2 dæmt til að greiða RH eina milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.