Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kallar eftir því að aukinn kraftur og fjármunir verði settir í hagtölugerð hér á landi. „Það væri gríðarlegur ábati af því að efla Hagstofuna og setja meiri kraft í gagnasöfnun. Þeir útlendingar sem koma hingað og ég tala við undra sig yfirleitt á tvennu. Í fyrsta lagi fyrst við erum svona fá — af hverju við séum svona ósammála.

Hitt er af hverju það eru ekki til nein gögn. Þeir halda að maður geti bara tekið upp símann og hringt og safnað þessu saman,“ sagði Ásgeir kíminn á fundi Seðlabankans og Hagfræðistofnunar í tilefni af því að hundrað ár væru frá fæðingu Jónasar Haralz í lok nóvember. „Heyr heyr,“ kallaði Björn Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri efnahagssviðs Hagstofu Íslands, í kjölfarið af fremsta bekk í salnum og uppskar hlátur fundargesta.

„Okkur hefur vantað nákvæmari gögn um ansi margt. Það hafa verið ákveðin vandamál varðandi þjóðhagsreikningana. Ég held að það væri mjög mikill ábati af því að styrkja Hagstofuna,“ segir Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að bæta mæti gagnavinnslu á mörgum sviðum og nefnir upplýsingar um framboð á húsnæðismarkaði og rekstur fyrirtækja sem dæmi.

Standast ekki alþjóðlegar skuldbindingar

Björn Rúnar tekur undir með Ásgeiri. „Við á efnahagssviðinu um þessar mundir erum sérstaklega að horfa á stöðu þjóðhagsreikninganna. Við erum með alþjóðlegar skuldbindingar í tengslum við EES-samninginn sem okkur tekst ekki að uppfylla.“ Þar sé brýnast að efla svokallað framleiðsluuppgjör landsframleiðslunnar. Bæði þurfi að beita nútímalegri aðferðum og að birta framleiðsluuppgjörið ársfjórðungslega.

„Það þyrfti að breyta áherslunni þannig að framleiðsluuppgjörið yrði kjarnauppgjör á landsframleiðslunni eins og það er í flestum öðrum þjóðum. Það eru breytingar sem áttu sér stað erlendis fyrir 20 til 30 árum. Með því er hægt að stemma betur af þá verðmætasköpun sem verður í fyrirtækjum við þá ráðstöfun sem verður í neyslu og fjárfestingu í samfélaginu.“ Björn Rúnar segir þjóðhagsreikninga nokkurs konar þungamiðju í tölfræði um efnahagsmál. „Í reynd má segja að öll efnahagstölfræðin snúist með einum eða öðrum hætti um þjóðhagsreikninga.

Nýjar kröfur kalli á nýjar aðferðir

Kröfur í samfélaginu kalli á gögn sem séu nær framleiðsluferlinu. „Það má nefna framleiðniútreikninga, tengingar kjarasamninga við efnahagsárangur, rannsóknir á ferðaþjónustu og umhverfismálum. Ég held að við finnum að við þurfum að geta svarað betur spurningum um þessi atriði. Til þess að gera það þurfum við að styrkja þjóðhagsreikninga frá framleiðsluhliðinni.“

Dæmi um það er að samkvæmt lífskjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem samið var um í vor byggja launahækkanir á hluta til á hagvexti hvers árs.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .