Saudí-arabíska ríkisolíufyrirtækið Aramco er arðbærasta fyrirtæki heims miðað við nýbirtar fjárhagsupplýsingar um fyrirtækið. Þrátt fyrir að selja tíu milljónir tunna af hráolíu á dag hefur margt verið á huldu um fjárhag fyrirtækisins.

Bloomberg greinir frá því að Armaco hafi hagnast um 33,8 milljarða dollara á fyrri helmingi ársins 2017, eða sem samsvarar 3.352 milljörðum króna. Upplýsingarnar byggja á gögnum sem dreift til fjárfesta í tengslum við fyrirhugaða skráningu Aramco á markað. Hagnaður fyrirtækisins er mun meiri en risa á borð við Apple, Samsung, Microsoft sem þar til nú hafa verið talin meðal þeirra arðbærustu í heiminum.

Þrátt fyrir mikinn hagnað fyrirtækisins er ekki víst að arðgreiðslur Aramco til almennra fjárfesta verði háar þar sem tekjur fyrirtækisins þurfa að standa undir útgjöldum ríkissjóðs Saudí-Arabíu hernaðar- og félagsmála, auk þess að þurfa að greiða fyrir munaðarlíf mörg hundruð prinsa konungsfjölskyldu Saudí-Arabíu.