Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að staðan í íslensku atvinnulífi sé mjög viðkvæm þótt hún sé tekin að glæðast eftir því sem við færumst nær því að kveða heimsfaraldurinn í kútinn.

„Bættar horfur eru meðal annars tilkomnar vegna meiri umsvifa en vænst var í ferðaþjónustu undanfarna mánuði og er það vel," segir Halldór Benjamín. „Það er að myndast misgengi á milli atvinnugreina. Í fjölda atvinnugreina hefur gengið vel að undanförnu og horfur eru jákvæðar, eins og fram kemur í reglubundinni skoðanakönnun SA og Seðlabankans á horfum í atvinnulífinu. Til þess að svo megi áfram verða er mikilvægt að stjórnvöld nýti sér reynsluna af baráttunni við veiruna undanfarna mánuði og marki enn skýrari stefnu til langs tíma í sóttvarnaaðgerðum, meðal annars á landamærunum."

Viðkvæm staða

Halldór Benjamín segir að eins og gefi að skilja sé staðan viðkvæmust innan ferðaþjónustunnar. Skuldastaðan innan þess geira sé víða við það að verða ósjálfbær.

„Af þeim sökum er mikilvægt að landamæraaðgerðir hér séu ekki strangari en gengur og gerist á meginlandi Evrópu, sérstaklega nú þegar fyrirséð er að Bandaríkjamarkaður mun opnast á næstu mánuðum með tilheyrandi uppgripum fyrir íslenska ferðaþjónustu ef allt gengur að óskum."

Spurður hvort hægt sé að draga einhvern lærdóm af faraldrinum og hvort þjóðarbúið sé ef til vill orðið of háð ferðaþjónustu svarar hann: „Mér hefur þótt þessi umræða sem hefur gjarnan sprottið upp undanfarið dálítið einsleit, um að Ísland hafi verið of háð ferðaþjónustu. Hver gat séð fyrir þessa síðustu átján mánuði? Íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu eru mörg hver öflug fyrirtæki sem greiða heilmikið til samneyslunnar og skapa verðmæt og fjölbreytt störf. Til lengri tíma finnst mér einsýnt að við veðjum áfram á fjölbreytni atvinnulífsins - og ferðaþjónusta verður órofa hluti af þeirri heild, þótt ég sé aldrei talsmaður þess að leggja öll egg sín í sömu körfu.

Mér finnst íslenskt atvinnulíf einfaldlega vera að stefna í rétta átt hvað þetta varðar, til að mynda með aukinni áherslu á nýsköpun undanfarin ár. Við viljum öll að hér þrífist öflugar útflutningsgreinar og fjölbreytt atvinnulíf. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra og þangað viljum við stefna."

Stóra verkefnið framundan

Að sögn Halldórs Benjamíns er brýnt að blása lífi í atvinnulífið.

„Stóra verkefnið framundan er að endurheimta þau lífskjör sem við bjuggum við áður en vágesturinn knúði dyra á vormánuðum 2020," segir hann.  „Það er enginn hörgull á tækifærum til vaxtar í íslensku atvinnulífi en þá ríður á að stjórnvöld ráðist í ákveðnar breytingar til þess að búa atvinnulífinu skilyrði til þess að vaxa. Við þurfum að koma á stöðugleika og sjálfbæru ástandi í hagkerfinu. Það gerum við með því að styrkja nýja atvinnuvegi, ryðja úr vegi óþarfa hindrunum, einfalda regluverk, nýta fjármuni hins opinbera betur til að lækka skatta og styrkja þannig atvinnulífið til frekari vaxtar. Við þetta má bæta að í öllum samanburði eru greidd há laun á Íslandi. Það er sérstaklega mikilvægt nú, í viðkvæmu ástandi, að aðilar vinnumarkaðar geti komið sér saman um launastefnu sem stuðlar að stöðugleika og lágu vaxtastigi."

Halldór Benjamín segir Ísland vera hálaunaríki í öllum samanburði. Það sé hins vegar ekki eftirsóknarverð staða nema verðmætasköpunin standi undir hækkunum.

„Frá aldamótum hafa laun hækkað þrefalt meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum," segir hann. „Afleiðingarnar eru þær að verðbólga hefur reynst fjórfalt meiri og vaxtastig fimmfalt hærra. Samtök atvinnulífsins hafa lagt það til að fara að fordæmi norræna vinnumarkaðarins og láta útflutningsgreinarnar marka launastefnuna. Á Norðurlöndunum eru umsamdar launahækkanir í samræmi við verðmætasköpun, þar sem samningar við útflutningsgreinar eru stefnumarkandi og aðrir aðilar fylgja á eftir.

Hér á landi hefur aftur á móti myndast hefð fyrir stefnumarkandi kjarasamningum sem aðrir kjarasamningar eiga að fylgja. Vinnulag sem ég tel að við verðum að hverfa frá. Í framhaldi berjast stéttarfélög fyrir því að bæta kjör sinna félagsmanna umfram aðra. Þetta veldur höfrungahlaupi launa og endalausum samningagerðum. SA hafa einnig lagt til að embætti ríkissáttasemjara verði eflt og samstaða um að fylgja launastefnunni verði tryggð áður en sest er að samningaborðinu. Ríkissáttasemjara verði falið frekara vald og verkfæri til að tengja saman aðila og fresta aðgerðum, komi til þess. Sameiginlegt verkefni allra verði að passa að samningar fari ekki fram úr stefnumarkandi samningum. Á þessum kerfisgalla verður að taka."

Arðbært atvinnulíf

Spurður hvernig reynslan af Lífskjarasamningunum hafi verið svarar hann: „Líkt og fram hefur komið komust ASÍ og SA að þeirri niðurstöðu að forsendur samninga væru brostnar, þar sem stjórnvöld hafa ekki staðið við yfirlýsingar í tengslum við samningana. Á fundi samninganefndanna í kjölfarið kom hins vegar fram af hálfu bæði ASÍ og SA vilji til að samningar standi. Þeim verður því ekki sagt upp og halda gildi sínu þangað til þeir renna út á haustdögum 2022. Engin breyting hefur orðið þar á. Þeirri staðreynd verður hins vegar ekki haggað að frekari lífskjör verða ekki sótt nema fyrir tilstilli arðbærs atvinnulífs."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .