Hæstiréttur hefur fallist á beiðni íslenska ríkisins um áfrýjunarleyfi í máli International Seafood Holdings S.A.R.L. (ISH). Verði niðurstöðu Landsréttar snúið við gæti það haft áhrif á arðgreiðslur eignarhaldsfélaga nokkur ár aftur í tímann.

ISH höfðaði málið til ógildingar á úrskurði ríkisskattastjóra (RSK) en með honum höfðu skattayfirvöld hafnað endurgreiðslu á 5% fjármagnstekjuskatti sem félagið hafði fengið frá dótturfélagi sínu, Icelandic Seafood International ehf. árið 2013.

Óumdeilt var í málinu að ISH átti rétt á að draga arðinn frá tekjum og þar með rétt til endurgreiðslu samkvæmt lögum um tekjuskatti að því skilyrði uppfylltu að um lögmæta arðgreiðslu hefði verið að ræða. Þá þótti óumdeilt að staðið hefði verið að samþykkt á greiðslu arðs með formlega réttum hætti.

Í héraði var kröfum ISH hafnað en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við. Reikningsskil félagsins hefðu verið unnin á grunni hlutdeildaraðferðar. Jákvætt eigið fé í ársreikningi dótturfélagsins hefði að stærstum hluta verið til komin vegna hlutdeildar í afkomu dótturfélaga en Icelandic Seafood hafði þó enn ekki notið í formi arðgreiðslna. Taldi Landsréttur að reiknuð staða óráðstafaðs eigin fjár hefði í heild sinni verið frjáls sjóður í skilningi laga um einkahlutafélög og arðsúthlutunin því heimil.

Sjá einnig: Arðgreiðslur fjölga félaga ólögmætar?

„Það er algerlega ný túlkun hjá ríkisskattstjóra og kom öllum endurskoðendum í opna skjöldu,“ sagði Guðmundir Ingvi Sigurðsson, lögmaður ISH, við Viðskiptablaðið eftir að dómur héraðsdóms féll. Á þeim tíma ræddi blaðið við ýmsa endurskoðendur og kom niðurstaða skattsins þeim í opna skjöldu enda væri þarna á ferð viðtekin venja sem hefði verið viðhöfð í áraraðir.

Eftir að dómur Landsréttar lá fyrir fór ríkið fram á það að Hæstiréttur myndi endurskoða niðurstöðuna. Taldi ríkið niðurstaða í málinu gæti haft mikið fordæmisgildi á sviðinu en einnig að dómur Landsréttar hefði verið bersýnilega rangur að efni til og í andstöðu við skattaframkvæmd síðastliðinna ára. Þar hafi verið lagt til að hlutdeild móðurfélags í hagnaði dótturfélags á grundvelli hlutdeildarreikningsskila gæti ekki verið grundvöllur til arðsúthlutunar. Þá telur ríkið að skýring Landsréttar á hugtakinu „frjáls sjóður“ sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd og fræðaskrif hér á landi.

Hæstiréttur féllst á leyfisbeiðnina á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um framangreind atriði. Málið verður því tekið fyrir af réttinum á þessu ári en ekki liggur fyrir hvenær það verður.