Arion banki kynnir í dag nýja útgáfu af Arion banka appinu, eða smáforritinu, en um er að ræða stærstu uppfærslu appsins frá upphafi. Hámarks heimildir eru nú sýnilegar öllum notendum þannig að þeir geta með einföldum hætti séð hversu háa fyrirgreiðslu þeir geta fengið hjá bankanum í sjálfsafgreiðslu. Þetta er algjör nýjung á íslenskum bankamarkaði segir í fréttatilkynningu.

Allir, bæði viðskiptavinir og aðrir, geta sótt appið og nýtt sér þjónustu bankans innan örfárra mínútna.

Núlán í appinu og greiðslukort sent um hæl

Sé heimild fyrir hendi er hægt að sækja um neytendalán eða Núlán, sem greitt er samstundis inn á reikning viðkomandi hjá bankanum eða hjá öðrum bönkum. Núlán eru hagstæðari neytendalán en margar þeirra nýju lánalausna sem sprottið hafa upp á síðustu árum.

Meðal fjölmargra annarra nýjunga er að notendur appsins geta nú opnað veltureikning, sem opnast samstundis, sótt um og fengið afgreitt greiðslukort, kredit- og debetkort, sem sent er um hæl, og opnað sparnaðarreikninga og byrjað strax að spara.

Þú og fyrirtækið í sama appi

Allir sem sækja Arion appið eru einnig gjaldgengir í Einkaklúbbinn og geta í framhaldinu sótt Einkaklúbbsappið og gengið að hundruðum tilboða víðsvegar um landið.

Þar að auki býður ný útgáfa Arion banka appsins upp á fleiri en einn notanda fyrir þá sem einnig eru í forsvari fyrir fyrirtæki. Þeir geta nú haft yfirsýn yfir rekstur fyrirtækisins sem og eigin fjármál í einu og sama appinu.

Besta bankaappið samkvæmt könnun MMR

Viðmót appsins hefur jafnframt verið gert enn þægilegra og notendavænna. Þannig er það app sem flestir telja besta bankaappið hér á landi, samkvæmt könnun MMR frá nóvember 2018, orðið enn betra fullyrðir bankinn í tilkynningu.

Arion banki hefur einsett sér að vera áfram í forystu um stafrænar lausnir á íslenskum bankamarkaði með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum upp á þægilegri bankaþjónustu. Þess vegna vinnur bankinn hörðum höndum að enn fleiri nýjungum sem gefnar verða út á næstu mánuðum og auka þægindi notenda.

Hægt er að nálgast appið á vef bankans og í Play Store fyrir Android síma og App Store fyrir Apple síma.