Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,41%, í 2.153,22 stig, í 4,1 milljarða heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag.

Mest hækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 2,93%, upp í 80,70 krónur, í 1.141 milljóna króna viðskiptum, en þau voru 25 í heildina yfir daginn þó stærstu viðskiptin hafi verið í byrjun dags.

Fasteignafélögin hækkuðu mikið

Reginn hækkaði næst mest, eða um 2,73%, í 726 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með eitt félag í dag, og fór gengið í 22,60 krónur. Fasteignafélagið Eik hækkaði þriðja mest, eða um 2,25%, í 8,19 krónur, í 225 milljóna króna viðskiptum.

Þriðja atvinnufasteignafélagið, Reitir, hækkaði einnig töluvert, eða um 2,06% í 364 milljóna viðskiptum, og fór gengi bréfanna í 74,40 krónur.

Fjarskiptafélögin lækkuðu mest og krónan veiktist

Síminn lækkaði hins vegar mest, eða um 1,70%, niður í 5,21 krónu, í 345 milljón króna viðskiptum. Origo lækkaði næst mest, eða um 1,49%, í 50 milljóna viðskiptum, og fór gengið niður í 26,50 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á hinu fjarskiptafélaginu, Sýn, sem lækkaði um 1,26%, niður í 31,30 krónur, en í litlum viðskiptum þó eða fyrir 23 milljónir króna.

Íslenska krónan lækkaði gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum. Hækkaði gengi evrunnar um 0,89% gagnvart krónunni, og fæst nú á 136,25 krónur, Bandaríkjadalurinn fór upp um 0,63% í 122,52 krónur, og breska pundið hækkaði um 0,27% í 160,86 krónur.