Verð á hlutabréfum í Arion banka hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 7,18% í 812 milljóna króna viðskiptum í dag. Í gær birti Arion uppgjör fyrir annan ársfjórðung líkt og Viðskiptablaðið greindi frá . Næst mest hækkun var hjá Sýn en félagið hækkaði um 3,4% í 23 milljóna króna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Marels og nam hún 1,27 milljörðum króna. Félagið hækkaði um 2,99% í viðskiptum dagsins. Í gær birti Marel uppgjör sitt fyrir annan árfjórðung líkt og Viðskiptablaðið greindi frá .

Þrjú félög lækkuðu á markaði í dag. Icelandair lækkaði mest eða um 6,63% í 2 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var hjá Högum en félagið lækkaði um 0,6% í 140 milljóna króna viðskiptum. Þá lækkaði Origo um 0,32% í 15 milljóna króna viðskiptum.

Hlutabréfavísitala Aðalmarkaðarins hækkaði um 3,36% í dag en heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 3,5 milljörðum króna.