Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 nam 3,4 milljörðum króna samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Heildareignir námu 1.119,7 milljörðum króna í lok mars samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 214,6 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016.

Arðsemi eigin fjár var 6,3% samanborið við 5,7% fyrir sama tímabil árið 2016.

Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta, sem nú er að mestu lokið.

Eiginfjárhlutfall bankans var 28,0% í lok mars en var 27,1% í árslok 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 27,3% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

Eftirfarandi orð lét Höskuldur H. Ólafsson falla í tilkynningu bankans:

„Rekstur bankans er stöðugur og bankinn er fjárhagslega sterkur eins og 28% eiginfjárhlutfall ber með sér. Fjárfestingar bankans á síðasta ári hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans. Má þar meðal annars nefna aukningu í þóknanatekjum í kjölfar þess að Arion banki tók yfir fjármálaþjónustu á Keflavíkurflugvelli í maí 2016. Einnig aukast tekjur vegna tryggingastarfsemi sem nú er stærri hluti af starfsemi bankans eftir að kaup á tryggingafélaginu Verði gengu í gegn á síðasta ári."