Arion banki hlaut tvenn verðlaun á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni, Banking Technology Awards, sem haldin var í nítjánda sinn sl. fimmtudag.

Arion banki var tilnefndur í tveimur flokkum og atti kappi við banka á borð við Credit Suisse, Bank of America, Barclays, BBVA, Morgan Stanley og Royal Bank of Scotland svo dæmi séu tekin. Flokkarnir voru:

  • Best Tech Overhaul Project / Besta aðferðafræðin við þróun stafrænna lausna
  • Best Use of IT for Lending / Besta stafræna lánalausnin

Arion banki hlaut fyrri verðlaunin fyrir verkefnahraðalinn „Stafræn framtíð“ sem þróunarverkefni bankans fara í gegnum. Viðskiptavinurinn og þarfir hans eru ætíð miðpunktur þeirrar þróunar. Í hverjum hraðli kemur saman starfsfólk úr ólíkum deildum bankans og algengast er að hver hraðall taki um 16 vikur. Niðurstaðan í hvert sinn er ný fullunnin stafræn þjónusta. Í gegnum hraðalinn hafa farið 19 stafrænar lausnir sem viðskiptavinir hafa tekið opnum örmum.

Seinni verðlaunin hlaut Arion fyrir eitt þessara þróunarverkefna, greiðslumat og umsóknarferli íbúðalána á vefnum. Verkefnið gerir viðskiptavinum bankans kleift að fá gilt greiðslumat á þremur mínútum og sækja um íbúðalán á innan við fimmtán mínútum, ferli sem áður tók daga eða vikur.

Arion banki var eini bankinn sem fékk verðlaun í tveimur flokkum á hátíðinni. Verðlaunin eru fjórðu alþjóðlegu verðlaunin á árinu sem Arion hlýtur fyrir stafræna bankaþjónustu og bætta þjónustuupplifun.