Sem varúðarráðstöfun verða tímabundið aðeins þrjú af fimm útibúum Arion banka á höfuðborgarsvæðinu opin hverju sinni, en í dag tók jafnframt gildi samkomubann vegna útbreiðslu Covid 19 veirunnar sem talin er vera uppruninn í Wuhan borg í Kína.

Arion banki segir öryggi viðskiptavina og starfsfólks ásamt því að tryggja þjónustu við viðskiptavini vera forgangsatriði og því sé gripið til þessara ráðstafanna. Viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa að sækja þjónustu í útibúi er því bent á útibú Arion banka á Bíldshöfða í Reykjavík, í Smáranum í Kópavogi og stafrænt útibú við Hagatorg.

Útibú Arion banka í Borgartúni 18 og í Kringlunni verða lokuð tímabundið en sjálfsafgreiðsluvélar útibúanna verða áfram opnar og bjóða bæði upp á úttektir og innlagnir auk fjölda annarra aðgerða.

„Við bendum viðskiptavinum á kosti þess að nýta stafrænar þjónustuleiðir eins og Arion appið og netbankann og biðjum þá að takmarka komur í útibú eins og unnt er. Jafnframt  er hægt að hringja í þjónustuver bankans í síma 444 7000, þar sem aukinn fjöldi starfsfólks sinnir viðskiptavinum, og hafa samband við okkur í gegnum netspjall á www.arionbanki.is og í gegnum netfangið [email protected]. Fjármálaráðgjöf fer nú fram í gegnum síma en ekki í útibúum og er hægt að panta tíma á vef bankans,“ segir jafnframt i tilkynningu bankans.

„Viðskiptavinum sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðarlána vegna Covid-19 og hyggjast nýta sér greiðsluhlé á afborgunum er bent á frekari upplýsingar á vef bankans. Einnig er þeim velkomið að  hafa samband í gegnum netfangið [email protected]. Víð ítrekum öryggi þess að greiða með snertilausum lausnum, svo sem síma, greiðslukortum eða úri.“