Arion banki hefur stefnt Magnús Garðarssyni, stofnanda United Silicon, og fer fram á fjárnám í 300 fermetra einbýlishúsi hans á Kársnesi. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu. Höfuðstóll skuldarinnar var upphaflega 5 milljónir króna og er á fyrsta veðrétti. Farið er fram á greiðslu dráttarvaxta frá 3. janúar 2018. Fasteignamat hússins er 123,7 milljónir króna.

Málið kemur til af uppsafnaðir yfidráttarskuld Tomahawk Development á Íslandi hf., sem var um tíma aðaleigandi United Silicon. Yfirdráttarreikningnum félagsins var lokað 6. september 2017. Þann 6. febrúar 2019 var bú Tomahawk Development á Íslandi hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrirséð þykir að ekkert fáist greitt upp í almennar kröfur úr þrotabúinu.

Tomahawk gaf út tryggingarbréf til tryggingar öllum skuldum sínum við Arion banka í október 2016 þar með talið vegna yfirdráttarlána veltureikninga að því er segir í stefnunni. Í tryggingarbréfinu var fasteign Magnúsar á Kársnesi sett að veði með fyrsta veðrétti. Magnús var þá stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og með prókúruumboð fyrir félagið, ásamt því að vera eigandi að 73,5% hlut í því samkvæmt stefnunni.

Magnús mun ekki hefur ekki orðið við innheimtutilraunum stefnanda og er málshöfðun því óumflýjanleg, að því er segir í stefnunni frá Arion banka.