Lýðfræði fyrirtækja (e. Business Demography Statistics) er ný tölfræði sem er ætlað að gera nákvæma greiningu fyrirtækjaþýðis og gefa mynd af þáttum ýmissa hópa fyrirtækja ásamt þróun þeirra yfir lengra tímabil. Lýðfræði fyrirtækja er tölufræði um fjölda virkra fyrirtækja, fjölda fyrirtækja sem hófu eða hættu starfsemi og tölfræði um það hvernig fyrirtækjum reiðir af, með tilliti til starfsmannafjölda og rekstrartekna einu, þremur og fimm árum eftir að þau hófu starfsemi. Tölfræðin sem nú er birt er fyrir tímabilið 2008-2017 og er brotin niður eftir atvinnugreinum samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun, ÍSAT2008. Þetta er tekið saman á vef Hagstofu Íslands .

Tölfræði um lýðfræði fyrirtækja byggir á samræmdri aðferðafræði Eurostat og OECD og er því samanburðarhæf við fyrirtækjatölfræði í öðrum löndum Evrópu. Tölfræðin byggir á rekstrarframtölum fyrirtækja og einstaklinga. Hún nær til einkageirans utan landbúnaðar, fjármála- og vátryggingastarfsemi. Undanskilin er opinber stjórnsýsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi, menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi ásamt starfsemi félagasamtaka.

Af þeim 3.080 fyrirtækjum sem hófu starfsemi árið 2012 voru 1.271 fyrirtæki enn virk árið 2017. Fjöldi starfsmanna hjá þessum fyrirtækjum var á árinu 2017 um 2.700 en það ár voru ríflega 30 þúsund virk fyrirtæki með um 134 þúsund starfsmenn.

Flest fyrirtæki sem hófu starfsemi árið 2012 voru í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi. Þetta voru upphaflega rúmlega 600 fyrirtæki en á árinu 2017 voru 225 þeirra enn virk.