Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax tapaði fjörutíu milljónum norskra króna, eða því sem jafngildir tæplega 489 milljónum íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Slátraði Arnarlax nálega tvö þúsund tonnum af laxi á tímabilinu og gerir ráð fyrir því að slátra tíu þúsund tonnum á árinu að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins .

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 146 milljónum norskra króna eða tæplega 1,8 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar voru rekstrartekjur fyrirtækisins í fyrra 247 milljónir norskra króna í heildina. Rekstrarhagnaður félagsins var neikvæður um 21 milljón króna í fyrra. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, segir að fyrirtækið áætli að EBITDA félagsins á þessu ári verði að jafnvirði 2,35 milljarða króna.

Hann segir að reksturinn hafi gengið vel og áfallalaust fyrir sig og telur markaðsaðstæður almennt sterkar. Hann segir enn fremur að mikil eftirspurn sé eftir laxinum. Hann útskýrir að 60 til 70 prósent af framleiðslunni fari til Whole Foods í Bandaríkjunum tíu prósent á heimsmarkað og afgangurinn fer til Evrópu.