Franski auðkýfingurinn Bernard Arnault hefur selt allan eignarhlut sinn í breska smásölufyrirtækinu Carrefour fyrir 724 milljónir evra, eða um 108 milljarða króna, samkvæmt Reuters . Arnault átti 5,7% í Carrefour í gegnum eignarhaldsfélagið Financiere Agache.

Arnault fjáfesti fyrst í Carrefour árið 2007 en þá keypti hann 9,8% hlut á meðalgenginu 47 evrur á hlut. Sölugengið í gær var í kringum 16 evrur á hlut. Heimildarmaður Reuters, sem þekkir til Agache, segir að félagið hafi þó ekki tapað á fjárfestingunni, meðal annars vegna arðgreiðslna.

Í tilkynningu sem Arnault sendi frá sér segir að endurskipulagning Carrefour verslunarkeðjunnar gangi vel en að Agache hafi ákveðið að horfa til annarra fjárfestinga.

Arnault stýrir tískurisanum LVMH, sem á meðal annars Louis Vuitton tískumerkið. Bernard Arnault og fjölskylda hans komust fyrir rúmum mánuði síðan í efsta sæti á auðmannalista Forbes yfir ríkasta fólk heims. Arnault er þó kominn aftur í þriðja sætið en auður hans er metinn á 183,4 milljarða dala. Einungis Jeff Bezos og Elon Musk eru ofar en hann á listanum.