Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hlaut í dag við viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afhenti Árna Oddi, verðlaunin í Hörpu.

Á 35 árum hefur Marel breyst úr litlu íslensku sprotafyrirtæki, sem sinnti innlendum sjávarútvegi, í hátæknifyrirtæki, sem er leiðandi á alþjóðavísu í þjónustu við ört stækkandi kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað. Frá árinu 2005 hefur veltan aukist úr 130 milljónum evra í 1,2 milljarða. Í dag eru starfsmennirnir orðnir um sex þúsund talsins og fyrirtækið er með starfsstöðvar í yfir 30 löndum í öllum heimsálfum. Á árinu 2018 jukust tekjurnar á fyrstu níu mánuðum ársins um tæplega 17% samanborið við sama tímabil 2017. Hagnaðurinn jókst um ríflega 34% á milli ára.

Árni Oddur Þórðarson forstjóri hefur leitt fyrirtækið í gegnum mesta vaxtarskeið þess. Hann segir að stefnt sé að áframhaldandi vexti Marel. Markmiðið sé að árið 2026 verði veltan komin í þrjá milljarða evra og starfsmennirnir orðnir 12 þúsund. Á næsta ári er stefnt að tvíhliða skráningu hlutabréfa félagsins.

„Styrkleiki fyrirtækisins er skýr framtíðarsýn og frábært starfsfólk,“ segir Árni Oddur í viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. „Styrkleikinn er líka fólginn í því að Marel hefur aldrei reynt að borða fílinn í einum bita. Byrjað var á að hanna tæki til að auka nýtingarhlutfall í fiskvinnslu á Íslandi en í dag sjáum við um allt vinnslukerfið frá slátrun til dreifingar og erum fremst í flokki á heimsvísu í kjöti og kjúklingi til viðbótar við grunn okkar í fiski.

Fyrstu árin var vöxtur fyrirtækisins hægur enda um hefðbundið sprotafyrirtæki að ræða. Frá árinu 1992 hefur vöxturinn aftur á móti verið um 20% á ári. Eins og áður sagði nam veltan 130 milljónum evra árið 2005 en árið 2017 var hún komin yfir milljarð.

Spurður hvort honum hafi órað fyrir þessum mikla vexti svarar Árni Oddur: „Já, eftir ítarlega yfirlegu yfir markaðinn á aðalfundi félagsins árið 2006 settum við fram vaxtarstefnu okkar til næstu 10 ára þar sem við myndum koma okkur í leiðandi stöðu með nýsköpun, markaðssókn og tveimur til fjórum stefnumarkandi yfirtökum. Í markmiðssetningu okkar kom fram að við gerðum ráð fyrir því að velta okkar myndi ná um einum milljarði evra árið 2015 og rekstrarhagnaður myndi aukast úr 7% EBIT í það sem við kölluðum „best in class“ eða um 15%. Við náðum því árið 2017, á skeiði sem litast af efnahagsniðursveiflu árið 2009 og einnig miklum hræringum á matvælamarkaði árið 2013 í kjölfars mikilla verðhækkana á orku og hráefnum. Okkur hefur því tekist ágætlega að aðlaga rekstur að settum markmiðum. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá markmiðin verða að raunveruleika og það hefði aldrei verið hægt án þess stórkostlega starfsfólks sem Marel býr yfir. Þetta sýnir hvað er mikilvægt að hafa skýra sýn, sterkan mannauð og vaxa í línu við stefnu og fara einungis í agaðar yfirtökur en ekki tækifærissinnaðar.

Núna stefnum við að vaxa um að meðaltali 12% á ári til ársins 2026. Í staðinn fyrir að vera með tvo þriðju í yfirtökum og einn þriðja í innri vexti, líkt og við höfum séð í sögu Marel þá verður hlutfallið þarna á milli jafnara. Á þessum tíma stefnum við að því að auka veltuna í þrjá milljarða evra og fjölga starfsfólki í 12 þúsund, þar sem meira en helmingurinn mun starfa utan Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna, sem í dag eru okkar stærstu markaðir.“

Ítarleg viðtal við Árna Odd Þórðarson er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag.